Viðskipti innlent

Landsvirkjun áformar meiri orkuöflun á fjórum stöðum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar. Steingrímur Dúi Másson

Ný orkuöflun Landsvirkjunar stefnir í að verða mjög umfangsmikil á næstu árum, að sögn forstjórans. Auk Hvammsvirkjunar áformar fyrirtækið stækkun virkjana á Þeistareykjum og við Sigöldu sem og vindorkulund við Búrfell.

Við sögðum í síðustu viku frá áformum Landsvirkjunar um að hefja framkvæmdir við Hvammsvirkjun í Þjórsá næsta sumar. En fyrirtækið áformar einnig aukna raforkuframleiðslu á Norðurlandi með stækkun jarðgufuvirkjunarinnar á Þeistareykjum, sem Hörður Arnarson forstjóri segir hafa reynst mjög vel.

Jarðborinn Óðinn á Þeistareykjum sumarið 2016. Frekari boranir eftir jarðgufu eru áformaðar þar næsta sumar.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson

„Og erum að áforma stækkun þar og munum hefja boranir þar í sumar,“ segir Hörður í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

Þá hefur fyrirtækið lengi horft til þess að virkja vindorkuna meira með fleiri vindmyllum við Búrfell.

Landsvirkjun er núna með tvær vindmyllur á hálendinu ofan Búrfells.Arnar Halldórsson

„Búrfellslundur var settur í nýtingarflokk í rammaáætlun núna í júní. Við höfum mikinn áhuga á að halda þar áfram og erum bara í að vinna að leyfisveitingum þar.“

Þá hefur Landsvirkjun einnig verið að skoða betri nýtingu vatnsafls á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og hefur núna sett stefnuna á stækkun Sigölduvirkjunar sem einnig fékk grænt ljós í rammaáætlun.

Sigölduvirkjun var gangsett árið 1978 og er 150 megavött. Landsvirkjun vill stækka hana um 50 megavött.Arnar Halldórsson

„Það ætti að vera hægt að komast í það á næstu árum. En við erum líka að horfa til þess að stækka hana um fimmtíu megavött.“

Samhliða Hvammsvirkjun hafði Landsvirkjun lagt drög að tveimur öðrum vatnsaflvirkjunum í Þjórsá, Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun. 

Tölvugerð mynd af áhrifasvæði Holtavirkjunar. Á miðri mynd má sjá fyrirhugaða brú yfir Þjórsá.Landsvirkjun

En eru ráðamenn fyrirtækisins farnir að huga að annarri stórri vatnsaflsvirkjun, auk Hvammsvirkjunar?

„Nei. Þessi fjögur verkefni eru mjög umfangsmikil. Og við erum með önnur verkefni sem eru ekki komin í nýtingarflokk í rammaáætlun. Þannig að við erum að vinna þar áfram í þeim. En þessi verkefni eru mjög umfangsmikil, ef við komumst í þau,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×