Innlent

Íslendingar fyrst og útlendingar með íslenskar kennitölur svo

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásgerður Jóna Flosadóttir er formaður Fjölskylduhjálpar Íslands.
Ásgerður Jóna Flosadóttir er formaður Fjölskylduhjálpar Íslands. Vísir

Fjölskylduhjálp Íslands á Reykjanesi skipuleggur úthlutun sína þessa dagana. Til stóð að reyna að úthluta mataraðstoð í dag og áttu þá Íslendingar á umsækjendalistanum að ganga fyrir. Þingmaður segir um brot á stjórnarskrá að ræða.

Í færslu Fjölskylduhjálparinnar á Reykjanesi í gær sagði að vonast yrði til þess að úthlutun færi fram í dag, ef veður leyfði.

„Við munum þá byrja á Íslendingunum sem sóttu um jólaaðstoð. Og ef vel gengur þá í beinu framhaldi erlenda ríkisborgara með íslenskar kennitölur,“ segir í færslunni.

Svona hljóðar færsla Fjölskylduhjálpar.

Nokkur fjöldi fólks gagnrýnir í ummælum við færsluna að framkvæmdin, að taka Íslendinga fram fyrir annað fólk við úthlutun, sé rasismi. Meðal þeirra er þingmaðurinn Björn Leví Gunnarsson.

„Ekki trúa mér, skoðið bara stjórnarskránna. Þetta er mismunun,“ segir Björn Leví og vísar til 65. greinar stjórnarskrárinnar.

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, __þjóðernisuppruna__, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Fjölskylduhjálp Íslands er sökuð um mismunun. Fyrir tveimur árum lýsti fyrrverandi sjálfboðaliði og skjólstæðingur reynslu sinni af mismunun á grundvelli trúarbragða við úthlutun matvæla. Þá sögðust konur af erlendum uppruna hafa upplifað mismunun.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar, svaraði ásökunum í yfirlýsingu á vef samtakanna. Þar sagði hún að 58 prósent skjólstæðinga væru með erlent ríkisfang og að gagnrýni byggði á staðreyndavillum.

Uppfært klukkan 10:15

Fjölskylduhjálp á Reykjanesi birti nýja færslu og sagði að aldrei hefði verið meiningin að mismuna neinum. Allir væru jafnir. Úthlutanir ættu að fara fram á tveimur dögum því svo margir skjólstæðingar þyrftu túlka við úthlutun.

Sú færsla var fjarlægð innan við klukkustund síðar. 

Þessi færsla var fjarlægð skömmu eftir birtingu.

Tengdar fréttir

Fjölskylduhjálp segir meirihluta skjólstæðinga vera af erlendum uppruna

Fjölskylduhjálp Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ásakana sem fram hafa komið í fjölmiðlum þess efnis að samtökin hafi mismunað skjólstæðingum sínum á grundvelli uppruna. Í yfirlýsingunni sem birtist á vef Fjölskylduhjálpar í gær er tekið fram að 58% skjólstæðinga séu með erlent ríkisfang og að gagnrýnin byggi á „staðreyndavillum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×