Viðskipti erlent

AGS spáir samdrætti hjá þriðjungi ríkja heims

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Árið fer erfiðlega af stað í Kína þrátt fyrir u-beygju stjórnvalda í aðgerðum gegn Covid.
Árið fer erfiðlega af stað í Kína þrátt fyrir u-beygju stjórnvalda í aðgerðum gegn Covid. AP/Ng Han Guan

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir þriðjung ríkja heims standa frammi fyrir samdrætti árið 2023. Framkvæmdastjórinn Kristalina Georgieva segir árið munu verða erfiðara en árið 2022.

Stríðið í Úkraínu, stýrivaxta- og verðhækkanir og útbreiðsla Covid í Kína eru meðal þeirra vandamála sem blasa við efnahagskerfum heimsins.

Georgieva sagði í viðtali við Face the Nation á CBS að jafnvel í þeim ríkjum sem glímdu ekki við samdrátt, myndu hundruð milljónir íbúa búa við samdráttar-líkar aðstæður. Hún sagði árið myndu byrja erfiðlega í Kína og áhrifin af því yrðu erfið bæði fyrir Kína og allan heiminn.

Katrina Ell, hagfræðingur hjá Moody's Analytics í Sydney, segir í samtali við BBC að jafnvel þótt spár geri ekki ráð fyrir samdrætti á heimsvísu, séu líkurnar óþægilega miklar. Evrópa muni ekki sleppa og Bandaríkin séu á bjargbrúninni.

Framleiðsla í Kína dróst saman í desember, þriðja mánuðinn í röð. Kínversk stjórnvöld tóku u-beygju í afstöðu sinni til kórónuveirufaraldursins í lok árs og drógu verulega úr aðgerðum til að takmarka dreifingu farsóttarinnar en óvíst er hversu langan tíma það mun taka hagkerfið að ná sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×