Innlent

„Byssuhvellir“ reyndust flugeldar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nóttin virðist hafa verið fremur róleg,
Nóttin virðist hafa verið fremur róleg, Vísir/Vilhelm

Ýmis verkefni rötuðu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt, flest tengd umferðinni líkt og venjulega.

Einn var handtekinn í tengslum við líkamsárás í miðborginni og annar sem var að reyna að sparka upp hurð í Vesturbænum. Þá var tilkynnt um innbrot í póstnúmerinu 108, þar sem tölvu var stolið úr verslun.

Lögregla var einnig kölluð til vegna tveggja einstaklinga sem sváfu ölvunarsvefni á veitingahúsi í miðbænum en þeir voru vaktir og þeim vísað á brott. Þá var tilkynnt um mann sem þótti illa til fara og fékk sá húsaskjól hjá lögreglu yfir nóttina.

Í Garðabæ var tilkynnt um byssuhvelli en í ljós kom að um var að ræða flugelda.

Nokkrir voru stöðvaðir í  umferðinni grunaðir um akstur undir áhrifum. Lögreglu barst einnig tilkynning um bílveltu í póstnúmerinu 203. Tveir voru í bifreiðinni og slasaðist farþeginn lítillega. Viðkomandi voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×