Síðustu vikur og mánuði hafa hörðustu bardagar í innrás Rússa í Úkraínu farið fram í austurhluta landsins, aðallega í nágrenni við borgina Bakhmut. Gífurlegt mannfall hefur verið þar hjá báðum fylkingum en þó mun meira hjá Rússum sem senda hverja hersveitina á fætur annarri í opinn dauðann.
Úkraínumenn segja að mannfall meðal Rússa hafi aldrei verið eins mikið og síðasta sólarhringinn. Hersveitir þeirra hafi fellt um eða yfir þúsund rússneska hermenn.
Úkraínumenn skortir skriðdreka á austurvígstöðvunum en í gær birti úkraínski herinn myndir þar sem verið er að lesta skip með 60 Bradley bryndrekum í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn hafa líka heitið að senda 31 stærri og öflugri skriðdreka af M1 Abrams gerð sem tekur nokkur tíma að þjálfa úkraínska hermenn á að stjórna. Þá ætla Evrópuþjóðir að senda 80 Leopard 2 skriðdreka.
Rússar sem, búa yfir mun fleiri skriðdrekum í innrás sinni, vara við því að aukin geta Úkraínu til að verjast innrásinni muni stigmagna átökin
„Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra reyna að draga átökin eins mikið á langinn og hægt er. Í þeim tilgangi hafa þeir byrjað að útvega Úkraínu þungavopn og opinberlega hvatt þá til að vinna af okkur landsvæði. Skref í þessa átt munu draga NAT- ríkin inn í átökin og gætu leitt til ófyrirsjáanlegrar stigmögnunar," sagði Sergei Shoigu varnarmálaráðherra Rússlands á fundi með herforingjaráðinu í dag.
Rússar hafi grandað þessum þungavopnum á vígstöðvunum og á leið til átakasvæða og muni halda áfram að gera það.

Bandaríkjamenn hafa einnig lofað Úkraínumönnum fullkomnum Patriot loftvarnakerfum. Í gær voru slík kerfi sett upp í æfingarskyni við Varjá höfuðborg Póllands. Mariusz Blaszczak varnarmálaráðherra Póllands segir stríðið í Úkraínu sýna fram á nauðsyn þessa að koma slíkum vörnum upp.
„Við gerum okkur öll greini fyrir því stríði sem geisar handan landamæranna. En við munum vísvitandi halda æfingar í þeim tilgangi að fæla alla árásaraðila. Þannig sýnum við að pólski herinn er tilbúinn til bardaga," sagði Blaszczak í dag.