Erlent

Ó­rjúfan­leg vin­átta þjóðanna tveggja

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Úkraínuforseti kom í óvænta heimsókn til Bretlands í dag og fundaði með forsætisráðherra og konungi landsins. Þá ávarpaði hann breska þingið og þakkaði því stuðning í baráttunni við Rússa.

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, tók á móti úkraínuforseta með faðmlagi á flugvellinum í morgun. Þaðan lá leið þeirra í Downingsstræti 10 þar sem Sunak tilkynnti frekari hernaðar- og fjárhagsaðstoð við Úkraínumenn.

Heimurinn þarfnist forystu Breta

Þetta er þriðja opinbera heimsókn Selenskí frá upphafi stríðsins en hann hefur áður heimsótt Pólland og Bandaríkin en þerra í fyrsta sinn sem hann heimsækir Bretland eftir innrásina.

Eftir fundinn í downingsstræti ávarpaði Selenskí breska þingið og afhenti því hjálm að gjöf sem úkraínskur flugmaður hefur borið.

„Heimurinn þarfnast forystu þinnar Bretland, eins og hann þarfnast hugrekkis Úkraínu, sagði Vólódímír Selenskí, Úkraínuforseti.

Stoltur af órjúfanlegri vináttu þjóðanna

„Herra forseti, ég fagna því að Selenskí forseti skuli vera hér í Bretlandi í kvöld. Það er til vitnis um órjúfanlega vináttu þjóðanna tveggja og ég er stoltur af því að við erum að útvíkka þjálfun úkraínska hersins og tökum með orrustuflugmenn og landgönguliða ,“ sagði Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands.

Þá átti Selenskí fund með Karli þriðja bretakonungi í Buckingham höll. Úkraínuforsetinn fer svo til Parísar í kvöld þar sem Emmanuel Macron, frakklandsforseti mun taka á móti honum. Líklegt þykir að hann muni svo fara til Brussel í Belgíu til funda með Evrópusambandinu og talið að hann muni ávarpa Evrópuþingið á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×