Handbolti

Ungverskt stórlið pikkar í mögulegan landsliðsþjálfara Íslands

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Michael Apelgren í leik með Elverum. Hann er í dag þjálfari Sävehof í Svíþjóð.
Michael Apelgren í leik með Elverum. Hann er í dag þjálfari Sävehof í Svíþjóð. Alex Nicodim/NurPhoto via Getty Images

Ungverska stórliðið Pick Szeged hefur boðist til að kaupa upp samning Michael Apelgren, þjálfara sænska liðsins Sävehof. Apelgren er einn þeirra sem hefur sagst hafa áhuga á þjálfarastöðu íslenska karlalandsliðsins í handbolta.

Frá þessu er greint á sænska miðlinum Aftonbladet. Þar kemur fram að ungverska liðið hafi boðist til að greiða Sävehof 1,1 milljón sænskra króna til að losa Apelgren undan samningi sínum, en það samsvarar tæplega 15 milljónum íslenskra króna. Í umfjöllun Aftonbladet kemur hins vegar einnig fram að Sävehof hafi hafnað tilboðinu.

Juan Carlos Pastor er núverandi þjálfari Pick Szeged, en hann mun hætta með liðið að yfirstandandi tímabili loknu.

Hinn 38 ára gamli Apelgren er sem stendur þjálfari Sävehof í sænsku úrvalsdeildinni. Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson leikur með liðinu, en Apelgren er einnig aðstoðarþjálfari sænska landsliðsins.

Apelgren er einn þeirra sem hefur verið orðaður við starf þjálfara íslenska karlalandsliðsins í handbolta eftir að leiðir Guðmunduar Guðmundssonar skildu við liðið. Í samtali við Vísi í síðustu viku sagðist Apelgren að hann myndi að sjálfsögðu hlusta ef símtalið frá HSÍ kæmi.

Apelgren hóf þjálfaraferil sinn sem spilandi þjálfari norska liðsins Elverum. Eftir tvö ár í þeirri stöðu lagði hann skóna á hilluna og einbeitti sér eingöngu að þjálfun. Alls gerði hann Elverum að norskum meisturum sex ár í röð.

Hann tók við Sävehof árið 2020 og í samtali við Vísi seinasta sumar sagði Tryggvi Þórisson að þjálfarinn væri stór ástæða þess að hann hafi valið að ganga til liðs við félagið. Sävehof situr í öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 37 stig eftir 23 leiki, þremur stigum á eftir toppliði Kristianstad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×