„Við höfum margt í huga og getum sagt margt um þessa hátíð, vegna þess að páskahátíðin er stærsta hátíð kristinna manna. Þetta er miklu stærri hátíð en jól og hvítasunna, þó svo að jólin eðli máls samkvæmt vegna hnattstöðu okkar séu miklu stærri og fyrirferðarmeiri hátíð í samfélaginu.
Á páskadagsmorgni fögnum við upprisu Drottins Jesú Krists. Það er stutta svarið,“ segir Þorbjörn.
Langa svarið felist í öllum atburðum dymbilvikunnar sem við erum nú stödd í miðri; sem byrji með pálmasunnudegi með inngöngu Krists í Jerúsalem. Síðar er hann svikinn, tekinn, dæmdur og svo krossfestur; svo rís hann upp á þriðja degi, það er páskadagur.
Og Jesú lifði þrátt fyrir að hafa verið tekinn af lífi. „Dauðinn dó en lífið lifir, segir í einum af okkar ágætu páskasálmum. Þetta er í raun yfirlýsing um að Guð er góður og hann yfirgefur okkur ekki. Það er alltaf von og hann gefur okkur líf þótt þessu lífi ljúki. Og þú ert aldrei svo mikið einn að þú hafir ekki hann með þér,“ segir Þorbjörn Hlynur.

Kirkjan þolir köpuryrðin
Þorbjörn segir að þrátt fyrir að landsmenn séu almennt þakklátir fyrir góða þjónustu kirkjunnar, sé það því miður svo að önnur neikvæðari sjónarmið um hana reynist stundum háværari.
„Það er einhvern veginn eins og þeir sem eru sífellt að gjamma og hafa eftir hver öðrum köpuryrði um kirkjuna, að á þá er meira hlustað,“ segir Þorbjörn. „En kirkjan þolir það. Kirkjan verður áfram, því Jesús Kristur er um ár og eilífð.“
„Það getur vel verið að kirkjan hafi alltaf átt undir högg að sækja, kirkjan hefur kannski alltaf verið í erfiðri stöðu. En á þessum fjörutíu árum sem ég hef þjónað hefur kirkjan breyst mjög mikið og þjónusta kirkjunnar við sína þjóð hefur margeflst. Þetta er allt önnur kirkja sem ég kveð en sú sem ég kom inn í,“ segir Þorbjörn, sem lét af störfum síðasta haust eftir fjörutíu ára starf sem prestur og síðar prófastur í Borgarfirði.