Samkvæmt ársreikningum síðasta árs greiddu Blikar 501 milljón í laun og tengd gjöld. Valur kemur þar á eftir með 306 milljónir. Þarna munar tæplega 200 milljónum króna.
Þetta kemur fram í skýrslu KSÍ og Deloitte um fjármál íslenskrar knattspyrnu á síðustu fjórum árum. Skýrslan verður birt síðar í dag en Vísir fékk aðgang að skýrslunni og birtir greinar úr henni í dag.
Þessar tölur frá síðasta ári sýna svart á hvítu að rekstur Kópavogsliðsins er mun meiri en hjá öðrum félögum. Tekjur voru rúmar 900 milljónir króna en gjöldin 746 milljónir. Þetta er það langhæsta í báðum flokkum hjá félögum landsins.
Laun og tengd gjöld:
2022:
- Breiðablik - 501 milljón
- Valur - 306
- FH - 285
- Stjarnan - 224
- Víkingur - 220
- Keflavík - 211
- ÍA - 191
- KR - 176
- HK - 169
- KA - 155
- Fylkir - 140
- ÍBV - 123
- Fram - 100
Er við skoðum eingöngu launakostnað liðanna á síðasta ári þá kemur í ljós að Valsmenn greiða leikmönnum sínum best eða 30 milljónum meira en Blikar. Valur var eina liðið sem fór yfir 200 milljónir króna í laun til leikmanna á síðasta ári. Athygli vekur líka að launakostnaður KR er ekki hár og hreinlega minni en hjá ÍA til að mynda.

Valsmenn greiddu líka langhæstu launin til leikmanna árið 2021 en launakostnaður liðsins var samt 40 milljónum króna minni en árið á undan.

Ef við færum okkur svo til ársins 2019, áður en Covid dundi á okkur, eru Valsmenn sem fyrr í sérflokki í launakostnaði leikmanna. KA er einnig með veglega útgerð og mikill launakostnaður hjá Þrótturum vekur líka athygli.
