Sex herskip voru einnig send á svæðið en um er að ræða lið í langvarandi áætlun ráðamanna í Kína varðandi það að grafa undan Taívan til langs tíma með miklum og stöðugum þrýstingi á eyríkið.
Forsvarsmenn herafla Kína mótmæltu svo því í dag þegar P-8A eftirlitsflugvél bandaríska flotans var flogið um Taívansund. Kínverjar sökuðu Bandaríkjamenn um að ýta undir ófrið á Taívansundi og grafa undan stöðugleika.
Bandaríkin eiga í hernaðarsamstarfi með Taívan og í óformlegu pólitísku samstarfi.
Sjá einnig: Kínverjar æfa hvernig þeir myndu umkringja Taívan
Varnarmálaráðherra Taívans segir, samkvæmt Wall Street Journal, að helmingi herflugvélanna hafi verið flogið í innan við hundrað mílna (160 km) fjarlægð frá Taívan, sem markar um miðja vegalengdina milli meginlands Kína og Taívan.
Einum kínverskum dróna var flogið inn á loftvarnarsvæði Taívans, samkvæmt ráðuneytinu, og var honum flogið hringinn í kringum eyjuna.
Hafa heitið sameiningu
Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinnar til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Ráðamenn í Kína hafa heitið því að sameina ríkin og með valdi ef svo þarf. Þeirra á meðal er Xi Jinping, forseti Kína.
Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.
Bandaríkin eiga í varnarsamstarfi með Taívan, eins og áður hefur komið fram, og hefur Joe Biden, forseti, sagt að Bandaríkjamenn myndu koma Taívönum til aðstoðar til tilfelli innrásar. Óljóst er þó hvort það myndi fela í sér beina hernaðaraðstoð eða aðstoð sambærilega þeirri sem Úkraínumenn fá frá Bandaríkjunum. Það er að segja vopn, þjálfun og upplýsingar, meðal annars.