Fótbolti

Marka­­súpa í Lengju­­deild kvenna | Grinda­­vík skoraði fimm gegn topp­liðinu

Siggeir Ævarsson skrifar
Helga Rut Einarsdóttir er aftur kominn á fullt með Grindvíkingum eftir erfið meiðsli
Helga Rut Einarsdóttir er aftur kominn á fullt með Grindvíkingum eftir erfið meiðsli Facebook UMFG

Þrír leikir fóru fram í Lengjudeild kvenna í kvöld og bar þar hæst að Grindvíkingar unnu stórsigur á toppliði HK, 5-3.

Fyrir leikinn voru Grindvíkingar í 6. sæti deildarinnar með tvo sigra, tvö jafntefli, tvö töp og tvö mörk í mínus. Sigur Grindavíkur var nokkuð öruggur eins og úrslitin gefa til kynna, en staðan var 3-2 í hálfleik.

Það vantaði ekki mörkin í leiki kvöldsins en í hinum leikjunum voru níu mörk skoruð alls. Afturelding vann þægilegan heimasigur á Augnabliki, 4-0. Fyrirliði Aftureldingar, Hildur Karítas Gunnarsdóttir, var heldur betur á skotskónum en hún skoraði þrennu á tólf mínútna kafla í fyrri hálfleik.

Hildur Karítas gekk í raðir Aftureldingar fyrir tímabilið frá Haukum. Hún er komin með 7 mörk í sumar eftir þrennu kvöldsins og er markahæst í deildinni.Afturelding

Þá vann Víkingur þægilegan 0-5 sigur á botnliði KR. KR-ingar náðu að halda sjó framan af leik en Víkingar settu eitt mark á 44. mínútu þegar Sigdís Eva Bárðardóttir braut ísinn. Í seinni hálfleik brustu svo allar flóðgáttir.

Úrslitin þýða að Víkingskonur tylla sér í toppsæti deildarinnar, tveimur stigum á undan HK, en bæði lið hafa leikið sjö leiki í deildinni. Grindavík og Afturelding klóra sig sömuleiðis upp töfluna, en liðin voru jöfn að stigum með átta stig hvort í 5. og 6. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×