Innlent

Sumar­bú­staða­eig­endur unnu þrek­virki við að slökkva gróður­eld í Svína­dal

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Slökkvilið Akraness er á leið í Svínadal þar sem gróðureldur á að hafa kviknað.
Slökkvilið Akraness er á leið í Svínadal þar sem gróðureldur á að hafa kviknað. Vísir/Vilhelm

Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar hefur ráðið niðurlögum gróðurelds sem kviknaði við sumarbústað í Svarfhólsskógi í Svínadal í Hvalfirði. Að sögn slökkviliðsmanns unnu sumarbústaðaeigendur þrekvirki við að slökkva eldinn.

Jens Ragnarsson, fulltrúi Slökkviliðsins Akraness og Hvalfjarðarsveitar, sagði slökkviliðið nýbúið að slökkva alveg í eldinum þegar blaðamaður náði tali af honum rúmlega tvö. „Við erum hérna að leggja froðu yfir sárið,“ sagði hann.

Að sögn Jens kviknaði eldurinn nálægt bústaði í Svarfhólsskógi í Svínadal og var hann um hundrað fermetrar að umfangi.

Hins vegar þurfti slökkviliðið ekki að berjast eitt við eldinn. Eigendur sumarbústaðar sem var um tuttugu til þrjátíu metra frá eldinum „unnu þrekvirki“ við að slökkva í honum með vatni og vatnsslöngu að sögn Jens.

Birkiskógurinn á staðnum er mjög þykkur og er jarðbotninn frekar þurr. Jens segir því gott að ekki fór verr. Þá er mikill vindur á svæðinu sem þýðir að eldurinn er fljótur að dreifa úr sér. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×