Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um áhuga vísindaheimsins á eldgosinu við Litla-Hrút en hvert einasta eldgos gefur færi á að afla nýrrar þekkingar á eðli slíkra atburða. En þetta er ekki bara vettvangur íslenskra jarðvísindamanna. Hingað til lands er mættur talsverður fjöldi erlendra vísindamanna.
Í þeim hópi er nýsjálenski eldfjallafræðingurinn Bruce Houghton sem starfar við Hawaii-háskóla. Þar hafa menn reglulega eldgos. En til hvers þá að koma alla leið til Íslands?
„Það er dálítill munur og við lærum mismunandi hluti. Það er eins og að gera mynd af fíl og maður sér fótinn á fílnum hérna, maður getur séð halann á Hawaii bara vegna aðstæðnanna. Við reynum að draga upp góða mynd af svona eldgosi fyrir allan heiminn, hnattræna mynd,“ svarar Bruce Houghton.
Hann segist í gegnum árin hafa átt mikið samstarf við íslenska starfsbræður sína og nefnir Þorvald Þórðarson og Ármann Höskuldsson.
„Við erum náttúrlega hluti af stórum hópi erlendra vísindamanna. Og þegar svona atburðir gerast, og við erum komin með svona langtímamarkmið, eins og þetta að reyna að módelera hraunrennslið, og það betur, þá náttúrlega köllum við í okkar fólk,“ segir Ármann.

Bruce kom einnig til Íslands til að sjá fyrri tvö eldgosin á Reykjanesi, árin 2021 og 2022. Vinna núna felist í því að afla gagna.
„Ég nota mikið af tímanum til að taka myndbönd, myndir í mikilli upplausn og greini þær svo seinna. En ég sé af upptökunum að þetta er stórkostlegt tækifæri, alveg eins og 2021. Það var frábært tækifæri,“ segir Bruce Houghton.

Ármann fagnar því að fá þennan erlenda liðsstyrk.
„Þau gefa kost á sér, þau eru að gefa okkur viku hér. Þau eru velflest styrkt af sínum ríkjum, þar sem au starfa, til þess að koma hérna upp eftir og gera þær mælingar sem við teljum að við þurfum til þess að betrumbæta okkar módel,“ segir Ármann.
„Það er svo miklu auðveldara að vinna hérna heldur en í Bandaríkjunum af því kerfið er sveigjanlegra, eldgosið er afmarkað hérna. Þetta er besti staður í heimi þessa stundina til að rannsaka eldgos,“ segir eldfjallafræðingurinn Bruce Houghton.