Innlent

Botnar ekkert í bréfi íslenskra samtaka til ráðherra á ensku

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Eiríkur botnar ekkert í því að íslensk samtök skrifi íslenskum ráðherra á ensku. Meðal samtakanna eru Samtök atvinnulífisins en  Anna Hrefna Ingimundardóttir, starfandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Eiríkur botnar ekkert í því að íslensk samtök skrifi íslenskum ráðherra á ensku. Meðal samtakanna eru Samtök atvinnulífisins en Anna Hrefna Ingimundardóttir, starfandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. vísir

Eiríkur Rögnvaldsson íslenskufræðiprófessor emeritus furðar sig á bréfi sem íslensk samtök innan íslensks atvinnulífs skrifuðu utanríkisráðherra á ensku. Með því segir hann samtökin gefa skít í íslensku.

Í málspjallshópi Eiríks á Facebook, sem er gjarnan vettvangur umræðu um stöðu íslenskunnar, var vakin athygli á bréfinu. Undir það skrifa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu. Skrifa samtökin Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og hvetja hana til að gæta að hagsmunum íslenskra fyrirtækja við upptöku tilskipunar, um verslun með losunarheimildir, í EES-samninginn.

Bréfið er allt á ensku sem Eiriki finnst með ólíkindum. Sendi hann því samtökunum bréf þar sem hann minnir á lagagreinar um stöðu íslenskrar tungu. 

Íslensku sýnd lítilsvirðing

„Vissulega er ekki lagaleg skylda frjálsra félagasamtaka að nota íslensku í starfi sínu, en það verður samt að ætlast til þess að þau taki tillit til skýrra lagaákvæða um íslensku sem þjóðtungu á Íslandi. Það gengur gersamlega gegn anda laganna og íslenskrar málstefnu að íslensk samtök sendi íslenskum ráðherra bréf á ensku og er í raun alveg óskiljanlegt. Þarna er íslenskri tungu og íslenskri málstefnu sýnd slík lítilsvirðing að það er með fádæmum og algerlega óboðlegt að þessi samtök geri það,“ skrifar Eiríkur í bréfi sínu.

Bendir hann á að mikið sé rætt um að íslenskan eigi undir högg að sækja, frá starfænum miðlum, mikilli enskunotkun, fjölda erlends starfsfólks á vinnumarkaði og fjölda ferðafólks. 

„Ábyrgð atvinnulífsins á þessu sviði er mikil – atvinnurekendur þurfa að leggja mun meiri áherslu á að kenna starfsfólki sínu íslensku og auðvelda því íslenskunám, auk þess sem þeir þurfa að sjá til þess að hvers kyns auglýsingar og merkingar séu á íslensku. Samtök atvinnulífsins hafa stutt þessa stefnu í orði, og fyrrverandi framkvæmdastjóri þeirra hvatti fyrirtæki oft til að nota íslensku. Þetta bréf kemur því eins og hnefahögg – eitt versta högg sem íslenskan hefur fengið lengi.“

Minna mark tekið á bréfi á íslensku?

Að lokum skrifar Eiríkur:

„Auðvitað má segja að eitt bréf á ensku breyti engu – það sé ekki ætlað almenningi, fjalli um mjög sérhæft efni, og valdi því ekki auknum enskum áhrifum á íslenskt mál eða málsamfélag. Það er í sjálfu sér rétt, svo langt sem það nær. En málið snýst ekki um bréfið sjálft eða innihald þess, heldur um ástæður þess að samtök í íslensku atvinnulífi skuli kjósa að skrifa íslenskum ráðherra á öðru tungumáli en opinberu máli landsins. 

Með því er verið að lýsa frati á íslenskuna, segja að hún sé ónothæf sem alvöru tungumál. Á bak við liggur e.t.v. sú hugmynd bréfritara að meiri líkur séu á að tekið sé mark á bréfi sem er á ensku. Þá kann að styttast í að íslenskan verði að heimilismáli sem eingöngu er notað í óformlegum samskiptum en ekki til alvarlegra hluta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×