„Það bendir til þess að kvika sé komin tiltölulega grunnt undir í Öskjunni,“ segir Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur aðspurður um hvað hækkun hitastigsins þýði. „Við vitum að land hefur verið að rísa þarna. Aukið kvikumagn eykur hitaflæðið sem hitar upp jarðhitageyminn og eykur jarðhitavirknina.“
Þorvaldur segir tvo möguleika í stöðunni komi kvikan upp á yfirborðið. Annars vegar er það afllítið hraungos, ekki ósvipað og við höfum séð á Reykjanesskaga undanfarin þrjú ár. En Askja er einnig þekkt fyrir að búa til sprengigos.
Í ljósi þess að líklegt sé að kvikan undir niðri sé súr telur Þorvaldur seinni möguleikann líklegri. Gosmagnið geti orðið 25 kílómetrar eða meira og gjóskufallið náð langt fyrir utan landsteinana.
„Það er erfitt að segja til um hvað gerist á næstu dögum,“ segir Þorvaldur. „Við vitum að gufustrókarnir eru að aukast aðeins. Menn hafa fundið brennisteinslykt í 300 metra hæð þegar þeir voru að fljúga yfir. Ef þetta heldur áfram á þessari braut er alveg eins hugsanlegt að við séum á leiðinni inn í annað eldgos.“
Ragnar Axelsson, ljósmyndari Vísis, flaug yfir Öskjuvatn í dag og tók myndir.

