Skoðun

Réttur þjóðarinnar, er hann hunsaður af stjórn­völdum?

Guðrún Njálsdóttir skrifar

Í baráttu minni um rétt minn til að velja mér búsetu hafa margir fílar orðið á vegi mínum, þessir fílar eru í líki sveitarstjórnarfólks í GOGG og einnig innviðaráðaherra sem hefur þessi mál á sinni könnu. Enginn þessara aðila sýnir því skilning að það er niðurlægjandi að vera „Óstaðsettur“ og ósýnilegur.

Innviðaráðaherra hefur meira að segja stofnað sérstakan starfshóp til að skoða málefni þeirra sem valið hafa að eiga sitt heimili í frístundabyggð. Formaður hópsins er sveitarstjóri GOGG (sá hreppur vill ekki „innflytjendur“) og augljóst er að ekki er ætlunin að finna lausnir heldur til að kanna hvort verið sé að misnota ákvæði lögheimilislaga um skráningu. Með öðrum orðum er það fólk sem kaus búsetufrelsi sakað um lögbrot með því einu að búa í sínu eigin húsi. 

Skilningur stjórnenda á hlutverki þeirra sem fulltrúa kjósenda er oft misskilinn. Skilyrði fyrir að vera kosinn er að gangast undir þá skyldu að hafa að leiðarljósi hagsmuni kjósenda sinna. Það er lenska að lofa öllu fögru fyrir kosningar og hunsa svo öll loforð eftir kosningarnar m.a. að tala saman um lausnir. 

Nú hef ég setið í stjórn Búsetufrelsis í tæp tvö ár og loksins er komið að tímamótum hjá félaginu, í staðinn fyrir að berjast við eitt sveitarfélag þá skal farið fram á landsvísu enda málefnið risavaxið og varðar alla frístundahúsaeigendur. 

Baráttumálið verður ekki bara „búsetufrelsi“ heldur ekki síður að vinna fyrir alla frístundahúsaeigendur á Íslandi hvað varðar greiðslur til sveitarfélagsins í formi fasteignagjalda. Enda er meginþorri frístundahúsaeigenda gríðarlega óánægður með mismununina á þjónustu versus íbúðarhús. Taka verður á þessu máli með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi og sjá til þess að jafnræðis sé gætt hjá landsmönnum öllum. 

Það er einlæg von mín að ALLIR frístundahúsaeigendur rísi upp og neiti að láta stjórnvöld hunsa rétt okkar til búsetufrelsis 

Höfundur er stjórnarkona í Búsetufrelsi og stoltur íbúi Grímsnes- & Grafningshrepps.




Skoðun

Sjá meira


×