Innlent

„Kross­brá“ þegar krafa Isavia barst í sumar

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Borgarstjóri segir að krafa um stórfellt skógarhögg í Öskjuhlíð hafi komið sér mjög á óvart. Um sé að ræða gríðarlega róttæka breytingu á einu stærsta græna svæði borgarinnar og ekki verði hlaupið að neinum ákvarðanatökum.
Borgarstjóri segir að krafa um stórfellt skógarhögg í Öskjuhlíð hafi komið sér mjög á óvart. Um sé að ræða gríðarlega róttæka breytingu á einu stærsta græna svæði borgarinnar og ekki verði hlaupið að neinum ákvarðanatökum. Vísir/Einar

Borgarstjóri segir ekki halla á borgina, sem hafi uppfyllt sína samninga og átt í góðu samstarfi við Isavia undanfarin ár. Honum hafi því krossbrugðið þegar krafa barst um að fella tæplega þrjú þúsund tré í Öskjuhlíð vegna flugöryggis. Málið verði ekki notað sem tól í baráttunni um að fá flugvöllinn burt úr Reykjavík.

Í gær var greint frá því að Isavia hafi í sumar sent bréf til Reykjavíkurborgar þar sem þess var krafist að tæplega þrjú þúsund tré á suðvesturhlið Öskjuhlíðar yrðu felld.

Í kröfunni kemur fram að hæð trjánna sé raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum og þess krafist að Reykjavíkurborg bregðist við án tafar.

„Ég skal viðurkenna að mér eiginlega krossbrá þegar þetta barst í sumar,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, í samtali við fréttastofu. 

„Við höfum reyndar í átt bara í góðu samstarfi við Isavia undanfarin ár. Gerðum samkomulag 2013 og grisjuðum skóginn í ágætu samkomulagi 2017 og svona tíu tré á ári eftir það. En þetta er auðvitað af allt öðrum skala.“

„Vekur auðvitað allskonar spurningar“

Málið snýst um elsta og samfelldasta skóginn í Öskjuhlíð, um þriðjung af öllu skóglendi svæðisins. 

„Þannig að þetta myndi óneitanlega gjörbreyta Öskjuhlíðinni sem útivistarsvæði og öllu umhverfi í rauninni frá Háskólanum í Reykjavík og upp að Perlu og kirkjugarðinum,“ segir Dagur.

En kemur þetta til greina að þínu mati?

„Við vinnum þetta þannig að við auðvitað skoðum allt og fáum umsagnir. En það er ljóst að við höfum á undanförnum árum verið að auka vernd svokallaðra borgargarða eins og Öskjuhlíðin er og Elliðaárdalurinn. Svæðið er hverfisverndað í skipulagi sem er æðsta stig verndunar í gegnum deiliskipulag og hluti Öskjuhlíðar er á náttúruminjaskrá. Þannig að svona stórfellt skógarhögg myndi kalla á mjög vandaða rýni og hugsanlega umhverfismat og ýmsar leyfisveitingar. Þetta er ekkert sem er hlaupið í og vekur auðvitað allskonar spurningar því Öskjuhlíðin hefur verið þarna býsna lengi. Þó að trén séu hærri en þau voru þegar þeim var plantað fyrir um sjötíu árum.“

Öryggissjónarmið verði tekin til skoðunar

Flugstjórar og flugmenn hafa einnig stigið fram og sagt að óhjákvæmilegt sé fyrir borgina að bregðast öðruvísi við en að fella trén til að tryggja flugöryggi.

Dagur segir að þau sjónarmið verði tekin til skoðunar. 

„Sumir flugvellir sem eru inni í miðjum borgum eru með bratt aðflug, eins og í London. Ég skil að aðilar í flugi vilji hafa það sem minnst, en það eru líka gríðarleg verðmæti falin í útivistarsvæði eins og Öskjuhlíð og ekkert sjálfsagt mál að hlaupa í það án tafar eins og þarna er talað um, að fella þrjú þúsund tré.“

Nú taki við fundarhöld með Isavia þar sem reynt verði að komast á því á hvaða grundvelli krafan sé byggð. 

„Við teljum okkur hafa uppfyllt alla þá samninga sem við höfum gert nú þegar, það hallar alls ekki á borgina í því efni,“ segir Dagur.

En ef þetta er farið að snúast um það að allur elsti og þéttasti skógurinn í Öskjuhlíð þurfi að víkja þá held ég að það þurfi að hefja það samtal á alveg nýjum grunni.

Ekki tól í baráttunni um flugvöllinn

Dagur segir að málið verði ekki notað sem tól í þeirri baráttu að fá flugvöllinn burt úr Reykjavík og ekki eigi að líta þannig á það.

„Hins vegar get ég alveg ímyndað mér að fólk spyrji sig að ef svona öflugt og fallegt grænt svæði fer ekki saman við flugvöll, þá má eiginlega segja að Isavia sé að stilla þessu þannig upp, skógi vaxinn Öskjuhlíð eða flugvöllur. Við höfum ekki gert það.“

Mynd frá Reykjavíkurborg sýnir hvernig Öskjuhlíð gæti litið út eftir að búið væri að fella öll tré innan aðflugsflatarins, um 2.900 tré.Reykjavíkurborg

Hver eru næstu skref?

„Næstu skref eru að efna til fundar og fara yfir rök og fá frekari gögn frá Isavia. Því þetta er mjög stórt mál,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar.

Facebook færslu hans um málið má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Isavia krefst þess að um þrjú þúsund tré verði felld í Öskju­hlíð

Innanlandssvið Isavia hefur krafist þess að 2.900 tré í Öskjuhlíð verði felld tafarlaust og til vara 1.200 hæstu trén. Erindi þessa efnis hafi verið lagt fyrir borgarráð í dag og hafi verið samstaða um þá málsmeðferð að beiðnin færi til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×