Samgöngusáttmáli milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins var undirritaður árið 2019 og nær til næstu fimmtán ára. Í mars á þessu ári var ákveðið að uppfæra hann meðal annars vegna þess að áætlaður kostnaður við hans hafði hækkað verulega.
Tæplega helmingur farið í stofnvegi
Á fyrstu þremur árum sáttmálans hefur 11,1 milljarði króna verið fjárfest vegna sáttmálans. 2,5 milljarðar af því hafa farið í Borgarlínuna. Tæplega helmingur, 5,4 milljarðar, hafa farið í stofnvegi, 2,1 milljarður í hjóla- og göngustíga og 1,1 milljarður í aðra uppbyggingu.
Í morgun ræddi Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um það að mögulega væri það gáfulegra að finna aðrar leiðir til þess að bæta almenningssamgöngur, til dæmis með því að bæta strætó, þar sem Borgarlínan væri afar umdeilt verkefni.
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, félags sem stofnað var utan um samgöngusáttmálann, segir eflingu Strætó ekki vera neina töfralausn.
„Það sem menn hafa reynt á síðustu árum er að laga strætó. Ríkið tekið fé úr stofnvegauppbyggingu og setja í strætó. Það hefur ekki skilað árangri, höfuðborgarsvæðið er of stórt fyrir svona hefðbundið strætókerfi. Við þurfum Borgarlínu sem er hraðvagnakerfi þar sem vagnar eru á sérakreinum og ekki fastir í umferð,“ segir Davíð.
Ekki galli að Borgarlínan sé umdeild
Von er á niðurstöðum starfshóps um uppfærslu sáttmálans í nóvember á þessu ári. Davíð telur uppfærsluna ekki hafa áhrif á stöðu Borgarlínunnar þrátt fyrir því að einhverjir séu á móti henni.
„Ég held að það eigi bara við mjög mörg umdeild og stór umbreytingarverkefni í sögunni. Þau hafa verið umdeild. Ég lít ekki á það sem galla og ég hef ekki orðið var við það í þessum mælingum að andstaða við Borgarlínuna sé að aukast,“ segir Davíð.