Minnispunktarnir voru ritaðar í tilefni skilafundar, þegar nemendur flytjast milli stiga innan skóla, af miðstigi yfir á unglingastig. Fréttastofa hefur skjáskot undir höndum þar sem tilteknir nemendur eru ýmist sagðir „erfiðir“ eða „latir.“ Öðrum nemendum var hrósað.
Í tilkynningu frá Lágafellsskóla segir að atvikið hafi tafarlaust verið tilkynnt Persónuvernd. Samband hafi verið haft við foreldra nemendanna sem um ræddi.
„Ljóst þykir að skráning, innihald og orðalag minnispunktanna sem ritaðir voru í minnisbókina voru því miður settir fram á ófaglegan hátt og voru þannig óásættanlegir og óviðeigandi. Janframt var meðferð þessara minnispunkta ekki í samræmi við verklagsreglur skólans um skráningu og meðhöndlun persónugreinanlegra gagna,“ segir í tilkynningunni.
Atvikið sé litið alvarlegum augum og börnum verði boðinn sálrænn stuðningur. Til standi að gera áætlun um hvernig stuðningnum verði háttað.
„Atvikið er harmað og skólinn og skólayfirvöld biðjast auðmjúklega afsökunar á því. Nú í framhaldinu munu skólayfirvöld leggjast á eitt um að bæta fyrir skaðann og fyrirbyggja að viðlíka atvik komi aftur upp innan skóla sveitarfélagsins,“ segir enn fremur í tilkynningunni sem Lísa Greipsson, skólastjóri Lágafellsskóla, skrifar undir.