Erlent

Rússar segja sig úr Barentsráðinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi Barentsráðsins í Noregi 2021.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi Barentsráðsins í Noregi 2021. EPA/Rune Stoltz Bertinussen

Yfirvöld í Rússlandi hafa ákveðið að segja sig úr Barentsráðinu og saka nágranna sína um að hafa gert ráðið óstarfhæft. Rússar segja Finna ekki hafa viljað afhenda þeim forsæti ráðsins.

Barentsráðið var stofnað árið 1993 og samanstendur af Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Rússlandi. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig átt sæti í Barentsráðinu. Ráðið var stofnað til að auka samvinnu ríkja sem liggja að Barentshafinu.

Í yfirlýsingu á vef utanríkisráðuneytis Rússlands segir að ráðið hafi reynst vel í gegnum árin og í gegnum það hafi friður og stöðugleiki á svæðinu verið tryggður. Önnur ríki í því hafi gert ráðið óstarfhæft frá mars 2022. Í febrúar 2022 réðust Rússar inn í Úkraínu.

Finnar hafa farið með forsæti Barentsráðsins og áttu Rússar að taka við því. Í yfirlýsingu Rússa segir að Finnar hafi ekki virst tilbúnir til þess og því hafi verið ákveðið að Rússar segðu sig úr ráðinu.

Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins segir að yfirvöld Rússlands séu sannfærð um að „hið núverandi pólitíska ástand“ sem stýri aðgerðum nágranna Rússlands á norðurhveli sé ekki í samræmi við langtímahagsmuni svæðisins. Er ábyrgð á því að Barentsráðið sé ekki lengur starfhæft lögð að fótum „félaga“ Rússlands í ráðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×