Skoðun

Má Lands­virkjun henda milljörðum?

Rafnar Lárusson skrifar

Viðhorf til kerfis upprunaábyrgða, þessa einfalda bókhaldskerfis sem orkufyrirtæki þjóðarinnar hagnast vel á, hefur því miður mótast að hluta af upplýsingaóreiðu og falsfréttum. Fullyrðingar heyrast um verið sé að blekkja neytendur og eyðileggja hreina ímynd íslenskrar orkuvinnslu og nokkuð algengt er að upprunaábyrgðum sé ruglað saman við losunarkvóta. Það er ekki svo.

Flestum er tamt að hugsa um raforkuna sem streymi frá einni virkjun beint í innstunguna heima. Þú borgar fyrir raforku og þú færð raforku, punktur og basta. Upprunaábyrgðakerfið hefur ekkert með þetta streymi raforkunnar að gera, enda er það bókhaldskerfi. Í því kerfi þarf að gæta þess að varan sé bara seld einu sinni. Ekkert orkufyrirtæki má selja fleiri upprunaábyrgðir en sem nemur þeirri orku sem það sannarlega vinnur.

Með þessu kerfi varð til ný, verðmæt útflutningsvara. Græni hlutinn af endurnýjanlegri orkuframleiðslu Íslendinga varð að sjálfstæðum verðmætum. Þessu má líkja við göngu makríls inn í íslenska landhelgi. Fyrstu árin var þetta bara eins og lítil torfa en eftir því sem verðið hefur hækkað og eftirspurnin aukist eru íslenskar upprunaábyrgðir að verða að heilli makrílgöngu.

Ef Íslendingar tækju þá ákvörðun að taka ekki þátt í þessu evrópska kerfi upprunaábyrgða, þá værum við annars vegar að kasta milljarða verðmætum á glæ og hins vegar þyrftu íslensk fyrirtæki, sem vilja fá sína orkunotkun vottaða, að kaupa upprunaábyrgðir að utan, til dæmis frá Noregi. Með þátttökunni gerum við orkuauðlindir okkar enn verðmætari og þannig skila þær meiru inn í sameiginlega sjóði samfélagsins.

Orkan okkar áfram 100% græn

Þegar Landsvirkjun selur upprunaábyrgðir vegna orkuvinnslu sinnar til t.d. umhverfismiðaðs fyrirtækis í Frakklandi þá þurfum við að mínusa grænu orkuna sem upprunaábyrgðirnar kveða á um úr bókhaldinu hérna heima og færa inn þær orkulindir sem bjóðast á starfssvæði fyrirtækisins franska. Þess vegna sýnir bókhaldið – og eingöngu þetta bókhald – að orkan okkar sé ekki 100% græn heldur komi þar líka við sögu kol, kjarnorka og jarðefnaeldsneyti. Það fer í orkubókhaldið. Eftir sem áður er orkan okkar hér öll unnin úr 100% endurnýjanlegum auðlindum. Auðvitað kemur spánskt fyrir sjónir að sjá fullyrðingar á rafmagnsreikningi um að hér komi kol eða kjarnorka við sögu en allir ættu að vita að svo er ekki. Þær upplýsingar eru eingöngu þarna til að vega upp á móti sölu upprunaábyrgðanna.

En hvers vegna erum við yfir höfuð að selja þessar ábyrgðir? Stutta svarið er: Af því að það er ekkert skaðlegt við sölu þeirra, þvert á móti, það er markaður fyrir þær og orkufyrirtæki þjóðarinnar fær milljarða króna í kassann. Bættur hagur orkufyrirtækis í eigu þjóðarinnar kemur öllum vel. Af hverju ættum við ekki að selja þær? Salan þýðir í raun að við fáum hærra verð fyrir raforkuna sem við framleiðum. Meiri tekjur skila hærri arði til þjóðarinnar og auðvelda okkur uppbyggingu grænnar orkuvinnslu. En það er einmitt þessi jákvæði tilgangur kerfisins, að kaupandi upprunaábyrgða er að styðja orkufyrirtæki til þess að byggja upp endurnýjanlega orku.

Árið 2021 voru tekjur Landsvirkjunar af sölu upprunaábyrgða 1 milljarður króna. Árið 2022 voru tekjurnar tæpir 2 milljarðar. Á þessu ári stefnir í um 4 milljarða tekjur af sölunni og við gerum okkur vonir um 5 milljarða á næsta ári.

Hámörkum afrakstur orkulinda

Verð upprunaábyrgða hefur hækkað mikið. Ef Landvirkjun seldi allar upprunaábyrgðir sem stafa frá orkuvinnslu fyrirtækisins gætu tekjurnar af þeirri sölu numið 15 milljörðum árlega. Væru eigendur Landsvirkjunar, íslenska þjóðin, sáttir ef við neituðum að selja upprunaábyrgðir og yrðum af þessum tekjum? Mættum við haga okkur með svo óábyrgum hætti?

Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem okkur er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Sala upprunaábyrgða fellur afar vel að því hlutverki.

Höfundur er framkvæmdastjóri Fjármála og upplýsingatækni hjá Landsvirkjun.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×