Skoðun

Inn­gilding fatlaðs fólks á vinnu­markað

Alma Ýr Ingólfsdóttir skrifar

Ég býð mig fram til formanns ÖBÍ réttindasamtaka á aðalfundi samtakanna núna í október.

Fjórða áherslumál mitt er inngilding fatlaðs fólks á vinnumarkað

Undanfarin ár höfum við hjá ÖBÍ lyft grettistaki, sýnt hve öflug við erum og hvað við getum.

Inngilding fatlaðs fólks á vinnumarkað er lykilatriði – með atvinnulífi og verkalýðshreyfingunni vinnum við gegn fordómum og með aukinni þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Í okkur felast tækifæri og ávinningur.

Ég vil efla enn frekar samstarf ÖBÍ og verkalýðshreyfingarinnar og stofna til samtals við atvinnurekendur um nauðsyn þess, fyrirtækjanna vegna, að inngilding sé þar lykilatriði. Rannsóknir erlendis sýna fram á að þeim fyrirtækjum vegnar betur. Viðeigandi aðlögun á jafnframt að vera eðlilegur hluti vinnumarkaðarins.

Okkur er tíðrætt um jafnfrétti, löggjöf um jafna meðferð á vinnumarkaði tók gildi í september 2018 með það að markmiði að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð t.a.m. fötlun. Þrátt fyrir það og fögur fyrirheit um mikilvægi fjölbreytileika á vinnumarkaði er nánast útilokað fyrir fatlað fólk að fá vinnu við hæfi og getu. Því er jafnan borið við að kostnaðurinn sé meiri en ávinningurinn. Því fer fjarri.

Þegar inngilding fatlaðs fólks á vinnumarkaði hefur náð fótfestu geta vinnustaðir fyrst farið að tala um raunverulegt jafnrétti. Full þátttaka fatlaðs fólks á vinnumarkaði á ekki að vera fjarlægur draumur heldur raunveruleiki sem felur í sér tækifæri og framþróun fyrir fatlað fólk, atvinnulífið og samfélagið allt.

Fimm áherslumál mín í formannskjöri ÖBÍ

  • Íslenskt stjórnvöld þurfa að grípa fyrr inn í hjá fötluðum börnum. Burt með biðlista og tryggjum að enginn dragist aftur úr.
  • Hvergi verði gefið eftir í þeirri kröfu að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
  • Besti árangur næst með góðri samvinnu og samtali við stjórnvöld, stofnanir og samfélagið. Við stöndum á staðreyndum og stefnumálum – en ekki í stríði. ÖBÍ þarf að starfa vel með sínum aðildarfélögum og hlusta á þeirra sjónarmið.
  • Inngilding fatlaðs fólks á vinnumarkað er lykilatriði – með atvinnulífi og verkalýðshreyfingunni vinnum við gegn fordómum og með aukinni þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Í okkur felast tækifæri og ávinningur.
  • Framfærsla er grundvöllur lífs. Við getum ekki sætt okkur við sem samfélag, aukna fátækt og stéttaskiptingu sem hefur áhrif á öll.

Höfundur er lögfræðingur og í kjöri til formanns ÖBÍ réttindasamtaka.




Skoðun

Sjá meira


×