Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, kynnti hin auknu framlög á ríkisstjórnarfundi í dag.
Heildarframlög Íslands vegna átakanna verða því 240 milljónir króna og er þetta í þriðja sinn sem stjórnvöld veita viðbótarframlag til UNRWA. Ísland er í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins sagt meðal hæstu framlagsríkja, sé mið tekið af höfðatölu.
„Mannúðarástandið á Gaza fer enn versnandi og þörfin fyrir aðstoð og nauðþurftir er mikil. Við Íslendingar höldum áfram að leggja okkar af mörkum við þessar aðstæður. UNRWA er meginviðbragðsaðili Sameinuðu þjóðanna í þeirri neyð sem ríkir meðal almennra borgara og Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur lögsögu í Palestínu þegar kemur að því að rannsaka alþjóðaglæpi, þar á meðal stríðsglæpi,“ segir Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, í áðurnefndri tilkynningu.
Þar segir einnig að UNRWA gegni lykilhlutverki við að koma nauðsynjum eins og mat og vatni inn á Gasastöndina og dreifa þeim til íbúa. Um 830 manns hafa leitað skjóls í skýlum stofnunarinnar, sem áður hýstu skóla, heilsugæslu og aðra þjónustu. Talið er að vel yfir ein og hálf milljón af 2,3 milljónum íbúa Gasa hafi þurft að flýja heimil sín vegna átakanna.
Sjá einnig: Hafna rýmingu suðurhluta Gasa og segja hungursneyð yfirvofandi
Að minnsta kosti 11.400 manns hafa fallið í árásum Ísraela, samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Gasastrandarinnar, sem Hamas stýrir. Erfitt er að ná samskiptum við íbúa Gasastrandarinnar þar sem öll orkuver eru eldsneytislaus.
Ísraelar hafa komið í veg fyrir að birgðir séu fluttar á Gasaströndina fyrir utan lítið magn matvæla og vatns sem flutt er frá Egyptalandi. Hjálparstarfsfólk segir þær birgðir sem hafa verið fluttar til Gasa alls ekki vera í nægjanlegu magni.
UNRWA flutti þó í dag nauðsynjar til Gasastrandarinnar í dag í eigin bílalest, samkvæmt AP fréttaveitunni. Birgðunum verður þó ekki dreift að svo stöddu vegna skorts á eldsneyti. Samskiptaleysið hefur einnig gert hjálparstörf erfið.