Ekki liggur fyrir af hverju flugvélin brotlenti en japönsku strandgæslunni barst neyðarkall frá áhöfn fiskiskips sem var að veiðum nærri staðnum þar sem flugvélin lenti í sjónum. Það var suður af Kagoshima á eyjunni Kyushu.
Samkvæmt AP fréttaveitunni fannst lík eins manns og brak sem talið vera úr flugvélinni um kílómetra frá Yakushima. Tómur björgunarbátur fannst einnig þar nærri.
Fréttaveitan segir að flugvélinni hafi verið flogið af stað frá herstöð landgönguliða í Yamaguchi og stefnan hafi verið sett á flugstöð í Okinawa.
![](https://www.visir.is/i/78AA03D10555FEB96A0B5CE1276460DCE9D7AE1FDD76ED5ACEF45AFF723EAF0F_713x0.jpg)
Þá er haft eftir aðstoðarvarnarmálaráðherra Japans að svo virðist sem flugmenn Osprey-flugvélarinnar hafi reynt að framkvæma neyðarlendingu á sjónum. Japanskir fjölmiðlar hafa eftir vitnum að eldur hafi logað í vinstri hreyfli flugvélarinnar.
Slys á Osprey-flugvélum eru tiltölulega algeng en flugvélarnar voru fyrst teknar í notkun á tíunda áratug síðustu aldar. Þær eru í notkun hjá bandarískum landgönguliðum, sjóhernum og hjá flugher Bandaríkjanna.
Ein slík flugvél hrapaði í sjóinn undan ströndum Ástralíu í ágúst. Þá dóu þrír og fimm særðust alvarlega. Það var fimmta banvæna Osprey-slysið frá árinu 2012.