Erdogan hefur ítrekað lagt stein í götu Svía og meðal annars tengt aðild þeirra að Nató við kaup á F-16 herþotum frá Bandaríkjunum. Tyrkland og Ungverjaland eru einu ríkin sem enn eiga eftir að samþykkja aðildarumsókn Svíþjóðar.
Upphaflega snérust andmæli Tyrkja um framgöngu Svía í málefnum Kúrda en eftir að þeirri hindrun var rutt úr vegi hefur Erdogan freistað þess að skilyrða samþykki Tyrkja, til að mynda því að bandamenn Nató aflétti vopnasölubanni gegn Tyrklandi.
Þá hefur það flækt málin enn frekar að Erdogan hefur tekið skýra afstöðu á móti Ísraelsmönnum í aðgerðum þeirra gegn Hamas, sem hefur flækt fyrirætlaða sölu Bandaríkjamanna á herþotunum til Tyrkja.
Svíar og Finnar sóttu um aðild að Atlantshafsbandalaginu á sama tíma, til að bregðast við innrás Rússa í Úkraínu. Aðild Finna hefur þegar verið samþykkt.