Innlent

Kóðinn færður aftur niður á grænan

Árni Sæberg skrifar
Öruggt er talið að fljúga yfir Grímsvötn, líkt og Ragnar Axelsson, RAX, gerði þegar hann tók þessa mynd.
Öruggt er talið að fljúga yfir Grímsvötn, líkt og Ragnar Axelsson, RAX, gerði þegar hann tók þessa mynd. RAX

Fluglitakóðinn fyrir Grímsvötn hefur aftur verið færður niður í grænan eftir að hafa verið færður upp í gulan seinnipartinn í gær. Töluvert hefur dregið úr skjálftavirkni á svæðinu.

Sjö skjálftar yfir einum mældust á einum klukkutíma nærri Grímsvötnum í gær. Skjálftahrinan byrjaði klukkan rétt rúmlega fjögur og stærsti skjálftinn var um 1,6 að stærð. Vegna þessa var fluglitakóðinn á svæðinu færður upp í gulan.

Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að síðan þá hafi ekki mælst frekari aukning í virkni og einungis einn smáskjálfti af stærðinni 0,6 mælst í morgun.

Önnur aðgengileg vöktunargögn sýni ekki marktækar breytingar. Fluglitakóði fyrir Grímsvötn hafi því verið færður aftur niður á grænan þótt jarðskjálftavirkni í Grímsvötnum hafi verið yfir bakgrunnsvirkni síðustu fjóra mánuði. 

Fluglitakóðinn sé notaður til þess að miðla skammtímabreytingum en ekki yfir lengri tíma. Grímsvötn séu eldstöð sem Veðurstofan vaktar náið og muni tilkynna ef virkni í Grímsvötnum eykst á ný.


Tengdar fréttir

Gos í Grímsvötnum líklega í vændum

Búast má við gosi í Grímsvötnum á næstu dögum eða vikum að mati eldfjallafræðings. Fluglitakóði yfir eldstöðinni var færður á gult í gær vegna óvenjulegrar skjálftahrinu en gosmökkurinn gæti haft áhrif á flugumferð.

Fluglitakóði færður í gulan yfir Grímsvötnum

Fluglitakóðinn fyrir Grímsvötn hefur verið færður upp í gulan eftir að sex skjálftar yfir einum mældust á einum klukkutíma nærri Grímsvötnum. Skjálftahrinan byrjaði rétt rúmlega fjögur í dag og var stærsti skjálftinn um 1,6 að stærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×