Þingmenn flokksins vörðu mánuðum í viðræður við Demókrata um frumvarpið en það á litla sem enga möguleika á því að verða að lögum.
Nokkrum klukkutímum áður hafði McConnell lýst því yfir að „nú væri tími fyrir þingið til að grípa til aðgerða“. AP fréttaveitan segir McConnell hafa átt erfitt með að fá aðra þingmenn til að styðja frumvarpið og virðist honum því hafa snúist hugur.
McConnell explicitly recommended a NO vote on cloture on the motion to proceed, according to several attendees.
— Andrew Desiderio (@AndrewDesiderio) February 6, 2024
McConnell said the problem isn t what Lankford negotiated, it s that the political mood in the country has changed. https://t.co/xd1bSJnBJE
Til stendur að halda fyrstu atkvæðagreiðsluna um frumvarpið í öldungadeildinni á morgun.
Donald Trump, fyrrverandi forseti og núverandi forsetaframbjóðandi, hefur krafist þess af þingmönnum Repúblikanaflokksins að þeir samþykki engin frumvörp sem ætlað er að sporna gegn flæði farand- og flóttafólks yfir landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.
Er það vegna þess að hann vill nota málið í kosningabaráttu sinni gegn Joe Biden seinna á árinu og óttast að gefa Biden pólitískan sigur á kosningaári.
Umrætt frumvarp myndi fela í sér einhverjar umfangsmestu mögulegu aðgerðir á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó í áratugi og myndu Repúblikanar ná fram mörgum af baráttumálum sínum með því.
Hælisumsóknir yrðu erfiðari og teknar fyrir á nokkum mánuðum í stað ára, eins og staðan er í dag.
Forsvarsmenn Verkalýðsfélags landamæravarða í Bandaríkjunum lýstu í gær yfir stuðningi við frumvarpið og sögðu að það myndi draga úr flæði ólöglegra innflytjenda, sem hefur aldrei verið meira en það var í desember, þegar um þrjú hundruð þúsund manns reyndu að komast inn í Bandaríkin.
Samtök sem berjast fyrir réttindum farand- og flóttafólks auk mannréttindasamtaka hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega. Amnesty International hefur lýst frumvarpinu sem „öfgafyllsta and-innflytjenda frumvarpi ríkisins sem lagt hefur verið fram í hundrað ár“.
Trump vill nota landamærin í kosningabaráttu
Trump hefur farið mikinn gegn frumvarpinu og sagt það vera „gjöf til Demókrata“ og leið fyrir þá til að koma sökinni fyrir ástandið á landamærunum á herðar Repúblikana. Hann og hans helstu stuðningsmenn hafa einnig haldið því ranglega fram að frumvarpið geri ekkert til að gera fólki erfiðara að komast inn í Bandaríkin með ólöglegum hætti.
Á lokuðum fundi öldungadeildarþingmanna Repúblikanaflokksins í gær kom til deilna milli þingmanna sem sagðir eru hafa öskrað á hvorn annan. Eftir fundinn sögðust þingmenn flokksins þurfa meiri tíma til að skoða frumvarpið.
Einn þeirra sagðist þeirra skoðunar að frumvarpið væri „dautt“.
Eftir fundinn í gærkvöldi sagði þingmaðurinn James Lankford, sem var í forsvari fyrir Repúblikanaflokkinn í viðræðunum við Demókrata, að hann teldi ólíklegt að frumvarpið yrði að lögum. Þá sagði hann mögulegt að hann myndi sjálfur greiða atkvæði gegn eigin frumvarpi.
Trump sagði í viðtali í gær að frumvarpið myndi koma niður á ferli Lankfords.

Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar, þar sem Repúblikanar eru með nauman meirihluta, hefur sagt að hann ætli að leggja fram sérstakt frumvarp sem snúist bara um hernaðaraðstoð handa Ísraelum.
Joe Biden, forseti, hefur heitið því að beita neitunarvaldi sínu gegn slíku frumvarpi.