Skoðun

Glitrandi skáta­starf í frí­stunda­heimilinu Gulu­hlíð

Helga Þórey Júlíudóttir skrifar

Skátastarf er fyrir öll börn, það er bæði einstakt og mjög fjölbreytt og því auðvelt að aðlaga að mismunandi hópum. Skátastarf er einstakt æskulýðsstarf vegna þess að það leggur áherslu á fjölbreytileika, sjálfstæði, samvinna, tengsl við náttúruna og skapandi hugsun.

Frá upphafi síðasta sumars hafa Skátarnir og frístundaheimilið Gulahlíð staðið fyrir vikuleigu skátastarfi við frístundaheimili Guluhlíðar sem er vel staðsett til upplifunar og útilífs. Börnin sem eru í Guluhlíð eru öll með sérstakar og oft á tíðum flóknar stuðningsþarfir og því getur reynst erfiðara fyrir þennan hóp að sækja æskulýðsstarf sem miðar að þeirra þörfum. Á vikulegum skátafundum átta börnin sig fljótt á því þegar að skátafundur er að hefjast því allir fá þá skátaklút og ákveðin tónlist fer í gang og það er táknræna umgjörðin sem gerir skátastarf skemmtilegt og spennandi. Lykilatriði að gleði og þátttöku barnanna er einstakt starfsfólk Guluhlíðar sem tekur skátafundunum fagnandi.

Í upphafi voru börnin óviss hvað væri að fara að gerast en í dag eru þau til í að taka þátt í öllum þeim ævintýrum sem skátastarfið hefur uppá að bjóða, enda eru viðfangsefnin sem boðið er uppá: ævintýraleg, skemmtileg, krefjandi, aðgengileg (ÆSKA). Skátarnir hafa m.a. slegið upp tjaldbúðum bæði að sumri og vetri, poppað og eldað mat yfir eldi, kannað náttúruna í gegnum ratleiki, skynjunarleiki, náttúrubingó og leiki.

Dagurinn í dag er dagur sjaldgæfra sjúkdóma og heilkenna og mörg börnin í Guluhlíð tilheyra þeim hópi og munu skátarnir skína sérstaklega skært í tilefni dagsins.

Höfundur er sérkennari og sveitarforingi skátastarfsins í Guluhlíð.




Skoðun

Sjá meira


×