Þar af hefur McConnell, sem varð 82 ára gamall í síðustu viku, verið nærri tvo áratugi í leiðtogastöðunni. Samflokksmenn hans hafa á undanförnum mánuðum haft áhyggjur af heilsu hans eftir að hann braut bein við fall og virtist tvisvar sinnum frjósa í þinghúsinu.
Sjá einnig: Birtir bréf frá lækni eftir að hann fraus
„Einn af vanmetnustu hæfileikum lífsins er að vita hvenær kominn er tími til að líta til næsta kafla,“ hefur AP fréttaveitan eftir McConnell.
McConnell ætlar þó að sitja út kjörtímabil sitt, sem lýkur í janúar 2027. Þá mun hann hafa setið á þingi í 43 ár.
Sen. McConnell: This will be my last term as Republican leader of the Senate. I'm not going anywhere anytime soon. I'll complete my job my colleagues have given me to do until we select a new leader in November...I'll finish my job the people of Kentucky hired me to do as well. pic.twitter.com/9ywtErIZ7M
— CSPAN (@cspan) February 28, 2024
Repúblikanaflokkurinn hefur gengið í gegnum ákveðna umbreytingu á undanförnum árum og hefur Donald Trump náð hörðu taki á flokknum. Hann og McConnell hafa lengi eldað grátt silfur en sá síðarnefndi hefur aldrei viljað taka undir lygar Trumps um að kosningasvindl hafi kostað hann sigur í kosningunum í nóvember 2020 og þar að auki sagði McConnell opinberlega í janúar 2021 að Trump bæri ábyrgð á árásinni á þinghúsið.
Þá er McConnell einn fárra þingmanna Repúblikanaflokksins sem hefur ekki lýst yfir stuðningi við nýtt framboð Trumps, þó margir hafi þrýst á hann með að gera svo. Fregnir hafa borist af því að Trump og McConnell hafi ekki talað saman í nokkur ár.
Í gegnum árin hefur McConnell lagt gífurlega áherslu á að fjölga íhaldssömum dómurum á öllum dómstigum í Bandaríkjunum en sérstaklega í Hæstarétti Bandaríkjanna. Hann var í fremstu víglínu þegar Repúblikanar í öldungadeildinni neituðu að taka fyrir tilnefningu Baracks Obama á nýjum dómara árið 2016 eftir að Antonin Scalia dó.
Scalia dó í febrúar það ár og sagði McConnell að ekki væri rétt að staðfesta nýjan dómara á síðasta ári forseta. Forsetakosningar fóru fram í nóvember það ár og þá vann Donald Trump.
McConnell veigraði sér þó ekki við því að staðfesta nýjan hæstaréttardómarar nokkrum vikum fyrir forsetakosningarnar 2020, þegar Trump tapaði.
Þá kom McConnell í veg fyrir allar tilnefningar alríkisdómara á síðasta ári Obama í embætti. Um markvissa áætlun Repúblikana var að ræða sem snýr að því að gera dómskerfi Bandaríkjanna íhaldssamara.