„Eldurinn var að mestu kæfður þegar við komum á staðinn en mikill reykur og einhver glóð ennþá. Það fór fram þónokkur vinna við að reykræsta,“ segir Stefán Már Kristinssson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í samtali við fréttstofu. Mbl greindi fyrst frá.

Með því að eldurinn hafi verið kæfður vísar Stefán til þess að þegar eldur kviknar í lokuðu rými, getur hann klárað hann súrefnið og kæft sjálfan sig.
Mikið tjón varð á Snyrtistofunni Garðatorgi en Stefán segir að þó megi þakka fyrir að ekki fór verr í þessu tilfelli. Fjölbreytt starfsemi fer fram á Garðatorgi, ýmsar verslanir eru á svæðinu auk heilsugæslu og bæjarskrifstofum Garðabæjar. Reykræsting fór fram í öðrum rýmum en á snyrtistofunni en ekki urðu skemmdir á öðrum fyrirtækjum.

Slökkviliðið var á vettvangi í um tvær klukkustundir, en þegar slökkvistarfi og reykræstingu var við það að ljúka barst útkall um alvarlegt bílslys skammt frá.