Skoðun

Dýr eiga ekki að þjást

Linda Karen Gunnarsdóttir skrifar

Dýr geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Við berum öll siðferðilega og lagalega skyldu gagnvart dýrum, bæði hvað varðar meðferð og aðbúnað, hjálparskyldu og tilkynningarskyldu. Rík lagaleg skylda hvílir á stjórnvöldum að gæta að velferð dýra. Hér á landi gerist það að dýr séu látin þjást á meðan mál eru í ferli hjá yfirvöldum. Það er með öllu óviðunandi að dýr séu látin þjást svo vikum og jafnvel árum skiptir, verja þarf velferð dýra mun betur hér á landi.

Þegar ný lög um velferð dýra voru sett árið 2013 gáfu þau góða von um aukna áherslu stjórnvalda á dýravelferð í landinu. Lögin eru að mörgu leyti góð og með þeim var jafnframt staðfest að dýr eru skyni gæddar verur. Ísland steig með þessu þýðingarmikið skref og varð eitt fárra landa heims sem viðurkenna að dýr hafi sinn tilverurétt sem beri að virða.

Minnkað eftirlit með dýravelferð

Nýjum dýravelferðarlögum fylgdi þó breyting sem hefur reynst mjög illa. Það staðfestir nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Matvælastofnunar (MAST) með velferð búfjár, margt er verulega ábótavant hvað varðar eftirlitið. Með nýjum lögum var eftirlit með dýravelferð fært til MAST, tíðni heimsókna minnkuð og ríkari áhersla lögð á ábendingar frá almenningi. Eftirlitið fór úr því að vera reglubundið árlegt eftirlit sem það var áður hjá sveitarfélögunum í svokallað áhættumiðað eftirlit þar sem langt getur liðið milli eftirlitsheimsókna. Dæmi um það er að það líða þrjú ár milli eftirlitsheimsókna hjá bæjum sem halda nautgripi og sauðfé og fjögur ár hjá þeim sem halda hross. Þetta er langur tími.

Graðnaut sem eru eldri en 6 mánaða skulu alfarið haldin inni lögum samkvæmt sem þýðir að aðeins þeir aðilar sem eiga erindi í gripahúsin sjá aðbúnað þeirra. Ef þessir aðilar tilkynna slæman aðbúnað þá veit viðkomandi búfjáreigandi yfirleitt hver tilkynnti sem hefur fælandi áhrif, þessir aðilar geta veigrað sér við að tilkynna til að verða ekki fyrir áreiti eða tapa viðskiptum. Á meðan þjást dýrin. Að stjórnvöld treysti á ábendingar frá almenningi í jafn ríkum mæli og nú er gert verndar ekki dýrin. Augljóslega þarf að auka tíðni eftirlitsheimsókna.

Núverandi fyrirkomulag ver ekki velferð dýra

Með minnkuðu eftirliti var stöðugildum dýraeftirlitsfólks jafnframt fækkað, úr um 12 stöðugildum í 6. Svæði dýraeftirlitsfólks er gríðarstórt og hafa þau eftirlit með hundruðum starfsstöðva sem halda búfé, ásamt því að bregðast við ábendingum vegna gæludýra. Það er dagljóst að þetta fyrirkomulag gengur ekki upp.

Núverandi fyrirkomulag eftirlits með dýravelferð er óviðunandi. Það veitir búfjáreigendum lítið aðhald, það er ekki fyrirbyggjandi og ver ekki velferð dýra eins og á að vera. Nauðsynlegt er að stjórnvöld endurskoði reglur um eftirlitið og það verði árlegt á öllum starfsstöðvum eins og áður var. Jafnframt þarf að bregðast mun hraðar við þegar dýravelferðarmál koma upp. Dýr eiga ekki að þjást.

Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) skorar á stjórnvöld að bæta eftirlit með velferð dýra og hefur sambandið hrundið af stað undirskriftasöfnun.

Hægt er að skrifa undir hér: Ekkert dýr á að þjást (dyravernd.is) 

Höfundur er formaður Dýraverndarsambands Íslands (DÍS).




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×