„Þeir kláruðu eiginlega stóran hluta af þessu í gær. Að halda þessu niðri og dagurinn í dag verður þannig að það verður farið með vatnsbirgðir þarna upp og gert klárt ef þetta heldur áfram,“ segir Ármann Árnason varðstjóri hjá Slökkviliðinu á Suðurnesjum.
Hann segir enn glæður á nokkrum stöðum en ekki víða.
„Þetta er enn viðráðanlegt en það verður mannafli til taks ef þetta tekur sig aftur upp. Það er svo skraufaþurrt þarna að það þarf lítið til,“ segir Ármann.
Eins og stendur er ekki rigning í kortunum og á hann því von á því að mannafli verði til taks næstu daga.
„Það verður fylgst vel með þessu. En það er búið að ná tökum á öllu sem var að brenna þarna í gær.“
Hann segir skemmdirnar ekki verulegar. Þegar mosinn brenni þá haldi hann glóðinni lengi í sér og það þurfi að bleyta hann vel. „Það er ekkert hægt að gera það öðruvísi.“
Á síðasta ári þurfti slökkviliðið að kljást við mikla og stóra gróðurelda eftir að eldgos varð við Litla-Hrút í júlí. Slökkviliðsttjórinn í Grindavík sagði í fréttum í gær að aðgerðir slökkviliðsins miðuðu að því að missa eldana ekki upp í sömu stærðargráðu og þá.