Tilkynnt var árið 2021 að NASA væri í leit að hugmyndum um tungljeppa og tækninýjungar fyrir þróun slíks farartækis. Nú er komið í ljós að fyrirtækin Intuitive Machines, Lunar Outpost og Venturi Astrolab munu koma að þróun tungljeppans, með aðstoð sérfræðinga NASA.
Sjá einnig: NASA leitar hugmynda um tungljeppa
Fyrirtækin mun fá allt að 1,9 milljarð dala til þróunarinnar en það samsvarar um 260 milljörðum króna. Einungis eitt fyrirtæki mun þó á endanum fá leyfi til að smíða tungljeppa fyrir NASA.
Vonast er til þess að jeppinn verði klár til notkunar fyrir Artemis V geimskotið. Ekki er vitað hvenær það á að eiga sér stað en það verður í þriðja sinn sem menn lenda á tunglinu í Artemis-áætluninni.
Eina Artemis-ferðin sem farin hefur verið hingað til er Artemis I, þegar ómannað geimfar var sent á braut um tunglið. Til stóð að senda geimfara á braut um tunglið á þessu ári en því hefur verið frestað til september á næsta ári.
Sjá einnig: Ekkert mannað geimskot til tunglsins á þessu ári
NASA stefnir á að senda geimfara til suðurpóls tunglsins á þessum áratug og á að byggja þar nýja tunglstöð á yfirborðinu, smáa geimstöð á braut um tunglið sem heita á Gateway og ýmislegt annað. Bækistöð þessa á svo að nota sem stökkpall lengra út í sólkerfið.
Mikið af þessari vinnu á vinna með einkafyrirtækjum.
Bandarískir geimfarar lentu síðast geimfari á tunglinu í desember 1972. Það var Apollo 17 þegar þeir Gene Cernan og Harrison Schmitt urðu ellefti og tólfti maðurinn til að ganga á yfirborði tunglsins. Í grískri goðafræði er Artemis systir Apollo.
Til stendur að reyna að lenda geimförum á tunglinu á nýjan leik í Artemis III í september 2026.
Congratulations to @Int_Machines, @LunarOutpostInc, and @Astrolab_Space for being selected to move forward in developing the #Artemis lunar terrain vehicle!
— NASA (@NASA) April 3, 2024
This Moon rover will allow future astronauts to travel far on the lunar surface: https://t.co/mzOd4Yz5XC pic.twitter.com/eB1QMq0PoO
Samkvæmt tilkynningu frá NASA á tungljeppi þessi að geta borið geimfara í geimbúningum og sýni um yfirborð tunglsins, fram til ársins 2039, að minnsta kosti. Jeppinn þarf að þola erfiðar aðstæður við suðurpól tunglsins og þá á að vera hægt að stýra honum frá jörðinni þegar engir geimfarar eru á tunglinu.
Einnig á öðrum aðilum en geimförum NASA að standa til boða að nota tungljeppann, hvort sem það verða aðrir geimfarar á tunglinu eða honum verði fjarstýrt.