„Við funduðum með Bláa lóninu í dag og gerum það aftur í fyrramálið. Þannig að það skýrist bara með morgundeginum hvað verður með Bláa lónið. Við ætlum að reyna að lifa með þessu ástandi, bæði þar og inni í Grindavík. Bara eins og gert hefur verið fram til dagsins í dag,“ segir Úlfar í samtali við fréttastofu.
Ríkislögreglustjóri ákvað í gær að fara af neyðarstigi niður á hættustig Almannavarna vegna eldgossins. Þá kemur fram á heimasíðu Bláa lónsins að lónið verði lokað að minnsta kosti út daginn í dag, en það hefur verið lokað frá upphafi eldgossins 16. mars vegna hárra gilda brennisteinsdíoxíðs, sem mælst hafa á svæðinu.
Til stóð að opna lónið aftur 27. mars en Úlfar gaf það þá út að hann teldi óforsvaranlegt að halda úti starfsemi í lóninu á meðan eldgos er enn í gangi. Vikuna áður hafði starfsmaður Bláa lónsins þurft að leita sér læknisaðstoðar vegna eitrunareinkenna.
„Það var ákvörðun Bláa lónsins að loka, þeir tóku fullt tillit til þess sem lögreglustjórinn sagði. Síðan er verið að skoða þetta dag frá degi. Það sem Bláa lóns fólk hefur verið að gera er að efla varnarbúnað hvað gasmengun varðar. Við verðum bara að sjá til.“