Skoðun

Skyn­sam­legt að selja Ís­lands­banka

Teitur Björn Einarsson skrifar

Ríkið á miklar eignir. Um 1.300 milljarða króna eru bundnar í eignarhaldi á um 40 ríkisfyrirtækjum, 900 fasteignum og yfir 400 jörðum. Skynsamlegt er að hefja skipulega sölu á þessum eignum sem ekki nýtast í rekstri ríkisins og minnka skuldir ríkissjóðs. Það er fagnaðarefni að í fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029 er einmitt sú stefnumörkun sett fram og vegur sala á eftirstandandi 42,5% eignarhlut í Íslandsbanka þar mestu.

Þessu tengdu mælti fjármálaráðherra í vikunni fyrir frumvarpi á Alþingi um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka. Þar er kveðið á um að ráðherra verði heimilað að selja eftirstandandi hluti í Íslandsbanka með markaðssettu útboði sem er opið bæði almenningi og fagfjárfestum. Slíkt sölufyrirkomulag er einfalt og skýrt og vel til þess fallið að fylgja meginreglum sem áhersla er lögð á við ráðstöfun ríkiseigna: gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni.

Röksemdir fyrir sölunni

Rökin fyrir því að klára söluna eru einkum af tvennum toga. Í fyrsta lagi er það skynsamlegt út frá hagsmunum ríkissjóðs, og þar með almennings, að losa um allt að 100 milljarða króna sem bundnar eru í Íslandsbanka og ráðstafa söluandvirðinu til að lækka skuldir ríkisjóðs og þar með vaxtagjöld. Í öðru lagi er ríkið alls ekki góður eigandi að fyrirtæki á samkeppnismarkaði og er það óréttlætanleg áhætta með almannafé.

Með því að ráðstafa andvirði Íslandsbanka til niðurgreiðslu skulda má gera ráð fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs geti lækkað um 1% af vergri landsframleiðslu. Skuldir ríkissjóðs á þessu ári nema 1.444 milljörðum króna og er vaxtajöfnuður neikvæður um 71 milljarð króna.

Segja má að vaxtagjöld séu þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs á eftir heilbrigðisþjónustu og félagslegum stuðningi. Það er því til mikils að vinna að lækka skuldir ríkisins og þar með vaxtagreiðslur til að hægt sé að sinna betur grunnþjónustu ríkisins og fjármagna samfélagslega arðbæra innviðauppbyggingu.

Á móti er bent á að ríkið fær ekki lengur arðgreiðslur frá bankanum eftir sölu á hlutunum. Því er til að svara að við ákvörðun á verði á hlutum í Íslandsbanka er búið að vigta inn væntar framtíðararðgreiðslur. Þá er bankarekstur áhættusamur og alls óvíst hver arðsemi eignarinnar verður til framtíðar litið. Í ljósi hárra vaxta á skuldum ríkissjóðs er enn fremur mun skynsamlegra að greiða niður skuldir en að ávaxta fjármunina í bankanum.

Ríkið er ekki góður eigandi

Einkaaðili hefur mikla og beina hagsmuni af því að fyrirtækið sitt sé vel rekið og skili arði. Til þess þarf eigandinn að hafa góða þekkingu á rekstrinum, velja stjórnarmenn af kostgæfni og vera vakinn og sofinn yfir breytingum og framþróun á markaði.

Þessu er ekki eins farið þegar ríkið er eigandi vegna þess að af eignarhaldinu leiðir innbyggður stjórnunar- og umboðsvandi sem erfitt er að ráða bóta á. Ákvörðun bankaráðs Landsbanka um að kaupa allt hlutafé í TM, í trássi við eigendastefnu ríkisins og án fullnægjandi upplýsingargjafar til Bankasýslunnar, er skýrt dæmi um þennan vanda.

Almennt er gengið út frá því að stjórnmálamenn eigi ekki að skipta sér af daglegum rekstri fyrirtækja í eigu ríkisins heldur eftirláta þeim sem betur til þekkja að stýra fyrirtækjunum. Í tilviki eignarhalds ríkisins á fjármálafyrirtækjum er gengið enn lengra og Bankasýslunni eftirlátið umsjón með eigendastefnunni en þar fyrir utan er svo óháðri valnefnd gert að tilnefna stjórnarmenn í stjórnir félaganna.

Tengsl stjórnenda við eigandann og eigandastefnuna verða þannig afar óljós og umboðsvandinn þeim mun meiri. Stjórnendur freistast til að taka ákvarðanir óháð vilja eigandans en þurfa á sama tíma ekki að svara fyrir ákvarðanir sínar gagnvart almenningi. Spyrja verður til hvers er ríkið eiginlega að eiga fyrirtæki í samkeppnisrekstri og til hagsbóta fyrir hvern?

Vanda þarf til verka

Frá þeim tíma er ríkið eignaðist Íslandsbanka hefur verið samstaða um að selja bankann. Heilt yfir náðust helstu markmið ríkisins við sölur í bankanum árin 2021 og 2022 þegar horft er til verðs og samsetningu eignarhalds. En misbrestur var á við framkvæmdina í seinna útboðinu og ljóst að það fyrirkomulag samræmdist ekki nægjanlega viðurkenndum stjórnsýsluháttum.

Úr því er bætt í frumvarpinu um söluna á Íslandsbanka. Þannig er skýrt kveðið á um tilboðsleið með markaðssettu útboði sem allir geta tekið þátt í, gagnsæi tryggt með því að skilyrði og forsendur útboðsins séu öllum ljósar og birtingu lista yfir kaupendur í framhaldinu. Söluþóknun til söluaðila er fastákveðin, skýrt kveðið á um framkvæmdina og skylda lögð á ráðherra að láta óháða athugun á sölunni fara fram.

Fleiri atriði munu líklega koma fram í þinglegri meðferð sem eru vonandi til þess fallin að styrkja umgjörðina frekar. Opin og málefnaleg umræða um skynsamlegt fyrirkomulag er til þess fallin að skapa meira traust um framkvæmd sölunnar.

Aðalatriði er að tryggja gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni við söluna. Forsendan er að það er skynsamlegt fyrir ríkissjóð að losa um eignarhaldið og ráðstafa söluandvirðinu með skýrum hætti í þágu almennings.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×