Þrír þingmenn Repúblikanaflokksins í svokallaðri reglunefnd þingsins þvertóku fyrir að hleypa frumvörpunum úr nefnd og stefndi í að þar myndi við sitja. Demókratar í nefndinni greiddu þó atkvæði með því að leggja frumvörpin fyrir þingið.
Deilur Repúblikana í nefndinni þykja til marks um mikla óreiðu í Repúblikanaflokknum en reglunefndin er iðulega undir stjórn þingforseta og samkvæmt frétt New York Times er mjög sjaldgæft að atkvæðagreiðslur þar fylgi ekki flokkslínum.
Þingmennirnir þrír sem stóðu gegn frumvörpunum fengu sæti í nefndinni í viðræðum við Kevin McCarthy, fyrrverandi þingforseta, sem hópurinn sem þingmennirnir tilheyra bolaði svo úr embætti.
Repúblikanar hafa mjög nauman meirihluta í fulltrúadeildinni og því hefur tiltölulega fámennur hópur mjög svo hægri sinnaðra þingmanna haft mikil áhrif á störf þingsins á kjörtímabilinu. Störf fulltrúadeildarinnar hafa einkennst af mikilli óreiðu á kjörtímabilinu.
Mike Johnson er í mjög erfiðri stöðu og er líklegt að frumvörpin geti kostað hann embættið. Farið var ítarlega yfir stöðuna vestanhafs á Vísi í gær.
Stefnt er að því að leggja frumvörpin fyrir þingið á morgun, laugardag, en undirbúningsatkvæðagreiðsla mun líklega fara fram seinna í dag og segjast Demókratar ætla að styðja frumvörpin. Því lítur út fyrir að frumvörpin um hernaðaraðstoð verði samþykkt.
Frumvörpin eru mjög lík sambærilegu frumvarpi sem samþykkt var í öldungadeildinni fyrir nokkrum mánuðum og er fastlega búist við því að öldungadeildarþingmenn muni samþykkja þau tiltölulega fljótt.
Hvíta húsið styður frumvörpin sem um ræðir og hefur Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lýst því yfir að hann muni skrifa undir þau.
Komin til Úkraínu eftir nokkra daga
Verði frumvörpin samþykkt og skrifi Biden svo undir þau, geta Bandaríkjamenn komið vopnum og skotfærum til Úkraínu á einungis nokkrum dögum. Bandaríski herinn gerir út þó nokkur vopnabúr í Evrópu sem innihalda hergögn eins og skotfæri fyrir stórskotalið og flugskeyti fyrir loftvarnarkerfi sem Úkraínumenn segjast hafa þörf fyrir.
Í frétt AP fréttaveitunnar segir að varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hafi í marga mánuði verið með klárar hergagnasendingar til Úkraínu.