Í frumvarpinu er lagt til að nefndin fari með stjórn, skipulagningu og samhæfingu aðgerða, tryggi skilvirka samvinnu við sveitarstjórn og opinbera aðila og hafi heildaryfirsýn yfir málefnum Grindavíkurbæjar.
Svandís kynnti áformin á blaðamannafundi að loknum ríkisstjórnarfundi. Þar kom fram að frumvarpið sé unnið í samstarfi við bæjarstjórn Grindavíkur sem óskaði eftir samstarfi um tilhögun og stjórnarfyrirkomulag verkefna við óvenjulegar aðstæður vegna jarðhræringa í Grindavík. Lagt er til að framkvæmdanefndin starfi tímabundið og að lögin falli úr gildi við næstu sveitarstjórnarkosningar árið 2026.
Bæjarstjórn í baráttuhug
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar ávarpaði fundinn. Hún sagði að nú væru 175 dagar frá því að rýma þurfti bæinn.Margir ætluðu að snúa heim eftir þá helgi eða nokkra daga. Hún sagði bæjarstjórnina í baráttuhug og markmiðið væri að að tryggja forgangsverkefni og fjármögnum verkefna til framtíðar.

„Grindavíkurbær ræður ekki einn við þetta verkefni,“ sagði Ásrún. Frumvarpið fæli í sér mikilvæg markmið um farsæld íbúa sama hvar þeir búa.
Umfangsmesta verkefni stjórnvalda vegna náttúruhamfara
„Jarðhræringarnar hafa skapað fordæmalausar aðstæður. En eitt hefur þó verð á hrein allan tímann, að samfélagið á Íslandi hefur sameinast um að styðja við Grindavík og samfélag þeirra,“ sagði Svandís.
Hún segir jarðhræringarnar eitt umfangsmesta verkefni stjórnvalda vegna náttúruhamfara á sögulegum tíma. Mikilvægt væri að skapa skýra og farsæla umgjörð um verkefnin framundan.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur verði fjölskipað og sjálfstætt stjórnvald sem hafi með höndum fjölþætt verkefni sem snúa að úrlausnarefnum sem tengjast jarðhræringunum við Grindavík. Með því að setja sérstök lög um starf framkvæmdanefndarinnar er hlutverk og umboð nefndarinnar skýrt.
Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar mun áfram fara með stjórn sveitarfélagsins, starfsmannahald og bera ábyrgð á og hafa fullt fjárstjórnunarvald yfir lögbundnum og ólögbundnum verkefnum, sem framkvæmdanefnd eru ekki falin sérstaklega.
Framkvæmdanefndin verður skipuð þremur einstaklingum og tekur til starfa við gildistöku laganna. Innviðaráðherra skipar einn fulltrúa, sem jafnframt verður formaður, mennta- og barnamálaráðherra einn og dómsmálaráðherra einn.
Helstu verkefni framkvæmdanefndar
Verkefni framkvæmdanefndarinnar snúa einkum að samfélagsþjónustu og framkvæmdum og viðgerðum á mikilvægum innviðum í Grindavík. Mörgum þessara verkefna hefur til þessa verið sinnt af Almannavörnum og öðrum stjórnvöldum. Helstu verkefni nefndarinnar eru:
- Starfrækja þjónustuteymi á sviði velferðar- og skólaþjónustu fyrir íbúa Grindavíkurbæjar, m.a. skóla- og frístundastarf, félagsþjónustu, barnaverndarþjónustu, þjónustu við eldra fólk, fatlað fólk og aðra viðkvæma hópa og stuðning á sviði húsnæðis- og vinnumarkaðsmála.
- Hafa umsjón með nauðsynlegum viðgerðum á samfélagslegum innviðum og könnun á jarðvegi. Einnig með nauðsynlegum viðgerðum til að tryggja virkni og afhendingaröryggi mikilvægra innviða o.fl.
- Umsjón með vernd verðmæta og framkvæmd aðgangsstýringar í Grindavíkurbæ í samvinnu við lögreglu.
- Þá verður innviðaráðherra heimilt að fela nefndinni að fara með samhæfingu verkefna sem kunna að vera á höndum annarra stjórnvalda með samþykki þeirra fagráðuneyta sem málasviðið heyrir undir. Loks verður sveitarstjórn Grindavíkurbæjar einnig heimilt að fela nefndinni tiltekin lögbundin eða ólögbundin verkefni.
