Fótbolti

Kefla­vík og Grinda­vík tryggðu sér sæti í átta liða úr­slitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristrún Ýr Hólm, fyrirliði Keflavíkur, með lipra takta.
Kristrún Ýr Hólm, fyrirliði Keflavíkur, með lipra takta. Vísir/Anton Brink

Keflavík og Grindavík tryggðu sér í dag sæti í átta liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu. Keflvíkingar unnu öruggan 1-3 sigur gegn Gróttu, en í Grindavík þurfti vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti gegn Gróttu á Seltjarnarnesinu þar sem Alma Rós Magnúsdóttir kom gestunum yfir strax á elleftu mínútu áður en Melanie Claire Rendeiro tvöfaldaði forystu liðsins stuttu fyrir hálfleik.

Arnfríður Auður Arnarsdóttir minnkaði muninn fyrir heimakonur með marki úr vítaspyrnu á 55. mínútu, en Saorla Lorraine Miller gulltryggði sigur Keflvíkinga með marki á síðustu mínútu venjulegs leiktíma, lokatölur 1-3.

Í grindavík var mun meiri spenna þegar heimakonur tóku á móti ÍA. Tinna Hrönn Einarsdóttir kom Grindvíkingum yfir í tvígang með mörkum á 41. og 79. mínútu, en Erna Björt Elíasdóttir jafnaði metin fyrir ÍA á 57. mínútu áður en Elvira Agla Gunnarsdóttir gerði slíkt hið sama á fyrstu mínútu uppbótartíma.

Því þurfti að framlengja leiknum, en þar tókst hvorugu liðinu að skora og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.

Í vítaspyrnukeppninni reyndust heimakonur hafa sterkari taugar. Þær skoruðu úr fjórum af fimm spyrnum sínum á meðan Skagakonur skoruðu aðeins úr þremur og Grindvíkingar eru því á leið í átta liða úrslit eftir daginn í dag, ásamt Keflavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×