Uppgjör og viðtöl: Valur - Grindavík 80-62 | Sannfærandi sigur Valsmanna Siggeir Ævarsson skrifar 23. maí 2024 18:31 Táknræn mynd fyrir leikinn. Taiwo Badmus á beinu brautinni en Ólafur Ólafsson liggur varnarlaus á gólfinu. Vísir/Pawel Valsmenn tóku á móti Grindvíkingum á Hlíðarenda í kvöld en fyrir leikinn var úrslitaeinvígið í járnum, bæði lið búin að vinna einn leik og ljóst að sigurvegari kvöldsins yrði aðeins einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum. Grindvíkingar verða að sækja í það minnsta einn sigur á Hlíðarenda ætli þeir sér að landa titlinum en það var ekki útlit fyrir að sá sigur kæmi í kvöld í upphafi leiks. Grindvíkingar virtu vanstilltir og ragir en óx ásmegin eftir því sem leið á leikhlutann, staðan 21-19 að honum loknum. Gestirnir skrúfuðu upp ákafann í varnarleiknum í 2. leikhluta og sýndu oft og tíðum ótrúlega fórnfýsi og baráttuvilja í lausum boltum og fráköstum. Grindvíkingar náðu upp fimm stiga forskoti og Finnur tók tvö leikhlé sem skilaði jöfnum leik í hálfleik, staðan 37-37. Sóknarlega áttu Grindvíkingar tvo sterka pósta nær algjörlega inni á þessum tímapunkti. DeAndre Kane með fjögur stig í hálfleik og Daniel Mortensen með núll. Þeir náðu sér reyndar aldrei á strik og Kane átti með afbrigðum dapran leik. Kane og Kristó takast áVísir/Pawel Í þriðja leikhluta féll hreinlega allt með Valsmönnum. Það virtist á tímabili varla skipta máli hvort þeir horfðu á körfuna, þeir hentu boltanum bara upp og hann fór spjaldið ofan í. Grindvíkingar létu allt fara í taugarnar á sér og virtust missa hausinn fræga. Staðan 64-48 fyrir lokaátökin og Valsmenn með leikinn í hendi sér á þessum tímapunkti. Grindvíkingar fundu hreinlega engin svör á báðum endum vallarins í seinni hálfleik og ógæfu þeirra varð allt að vopni. Þegar Kristinn Pálsson smellti þristi með mann í andlitinu og kom muninn í 20 stig var þessi leikur einfaldlega búinn þó enn væru rúmar fimm mínútur eftir. Lokatölur 80-62 á Hlíðarenda og Valsmenn taka því forystuna í einvíginu 2-1 en næsti leikur er í Smáranum á sunnudaginn. Atvik leiksins Í byrjun þriðja leikhluta varð óhugnalegt atvik þegar Antonio Monteiro klifraði nánast yfir Ólaf Ólafsson og féll svo í jörðina úr mikilli hæð og lenti á bakinu með háum skell. Hann var augljóslega sárkvalinn og lá lengi óvígur eftir. Andartaki síðar lá Monteiru óvígur eftirVísir/Pawel Hann var að lokum studdur af velli og alls óvíst hvort hann taki frekari þátt í þessari úrslitaseríu. Stjörnur og skúrkar Booker snýr á Ólaf ÓlafssonVísir/Pawel Eflaust voru ekki margir með „Frank Aron Booker stigahæstur í leik þrjú“ á bingóspjaldinu sínu en það var engu að síður staðreyndin í kvöld. 20 stig frá honum, sjö fráköst að auki og tveir stolnir boltar. Kristófer Acox var næst stigahæstur Valsmanna með 14 stig og hélt DeAndre Kane algjörlega í skefjum. Kristó stillir upp í kerfiVísir/Pawel Hjá Grindavík var Dedrick Basile nánast einn með lífsmarki. 19 stig þar en aðeins tvær stoðsendingar, enda hittu liðsfélagar hans afar illa í kvöld. Basile sækir á körfunaVísir/Pawel Skúrur kvöldsins er óumdeilanlega DeAndre Kane. Eftir að hafa skorað 37 stig að meðaltali í fyrstu tveimur leikjunum skoraði hann aðeins átta í kvöld og var 2/18 í skotum og þar af 0/13 í þristum. Daniel Mortensen var einnig óvenju líflaus í kvöld og skilaði heilum fjórum stigum. DeAndre Kane reynir að komast framhjá KristóVísir/Pawel Dómarar Dómarar kvöldsins voru Kristinn Óskarsson, Davíð Tómas Tómasson og Jóhannes Páll Friðriksson. Þeir létu leikinn flæða á löngum köflum en dæmdu svo á mjög litlar villur inn á milli, sem riðlaði töluvert jafnvæginu í leiknum. Ekki þeirra besta frammistaða en enginn skandall heldur. Stemming og umgjörð Það var mikið líf í N1 höllinni í kvöld. Lifandi tónlist fyrir leik og ljósasýning. Það kom þó á óvart að það var eitthvað af lausum sætum en að vísu var búið að bæta við ansi mörgum stólum á gólfið. Stemmining í kvöld var svolítið í takt við leikinn, kaflaskipt en Valsmenn létu þó ágætlega í sér heyra. Viðtöl Finnur Freyr Stefánsson: „Góður sigur, frábær vörn“ Finnur Freyr fer yfir málin með sínum mönnumVísir/Pawel Andri Már bað Finn Frey, þjálfara Vals, að útskýra það afrek að halda Grindavík í 62 stigum og benti honum á að Grindavík hefði ekki skorað minna nánast allt árið, síðast gegn Hetti þegar liðið skoraði 78 stig þann 4. janúar en Finnur gaf lítið fyrir slíkan samanburð. „Svona samanburður skiptir engu máli. Góður sigur, frábær vörn. Mér fannst við vera að gefa full mikið af hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik. Þegar við vorum aðeins rólegri sóknarlega og við náðum að búa til góð skot í hvert einasta skipti þá náðum við að loka meira á hröðu sóknirnar hjá þeim. Bara frábær frammistaða hjá strákunum og hrós á þá að standa sig svona vel á stóra sviðinu.“ Þá bað Andri hann um að útskýra hvað var að gerast þegar hann tók tvö leikhlé með stuttu millibili í 2. leikhluta. „Við vorum að flýta okkur rosa mikið og taka slæmar ákvarðanir. Hleypa Basile og fleirum í hröðu sóknirnar sínar. Mér fannst við gera vel í seinni hálfleik, þá vorum við aðeins rólegri og fundum götin og holurnar og gerðum vel.“ Staðan í hálfeik var jöfn en Finnur var á því að hans menn hefðu í raun verið að spila mun betur en Grindavík. „Við vorum að hitta illa. Mér fannst við eiga skytturnar okkar inni. Vorum að klikka mikið í kringum körfuna og vorum undir í 50/50 baráttunni. Vorum með heimskulega tapaða bolta sem gáfu þeim körfur. Mér fannst við betri í fyrri hálfleik en var líka ánægður með að við vorum ekki að láta svona mistök bögga okkur mikið. Bara héldum áfram. Eins og við erum búnir að vera að gera alla þessa úrslitakeppni. Erum að verða betri með hverjum leiknum í hverri seríunni og það er eitthvað sem gerir þjálfara ákaflega stoltan, en að því sögðu þá skiptir þessi leikur engu máli ef við vinnum ekki einn í viðbót.“ Mortensen og Kane skoruðu mikið í síðasta leik en skoruðu samanlagt tólf stig í kvöld. Hvað útskýrir það? „Bara frammistaðan hjá okkar mönnum. Bæði frábær liðsvörn og hjá þeim sem voru að dekka þá hverju sinni. Náðu kannski að taka í burtu þá hluti sem voru að meiða okkur hvað mest í síðasta leik.“ Hann vildi þó ekki gefa upp hvað það var nákvæmlega hvaða áherslubreytingu Valsmenn gerðu til að stoppa Kane. „Til þess ertu með þessa gæja þarna í settinu. Helga Magg veðurfréttamann til að skoða þetta. Hann fer yfir þetta. Við verðum að halda okkar fyrir okkur og láta ykkur kryfja. Annars er maður að taka vinnuna af þeim.“ Finnur hafði litlar áhyggjur af því að halda sínum mönnum við efnið fyrir næsta leik. „Það verður held ég bara ekkert mál. Bara áfram það sem við erum búnir að vera að gera. Taka einn leik í einu. Okkur fannst að við hefðum átt að vinna síðasta leik í Smáranum. Við vitum að við getum unnið þar bara eins og í öllum öðrum húsum. Þetta lið er búið að fara á erfiða útivelli undanfarin ár, fara í Síkið og vinna þar, Njarðvík, Þorlákshöfn, Garðabæ. Lið sem er búið að ganga í gegnum margt undanfarin ár. Við vitum bara það að ef frammistaðan er góð þá vinnum við.“ Ólafur Ólafsson: „Þú vinnur ekki leiki ef þú ert svona slakur varnarlega.“ Ólafur Ólafsson vonsvikinnVísir/Pawel Ólafur Ólafsson, fyrirlið Grindvíkinga, var nokkuð brattur þrátt fyrir tapið þegar hann mætti í viðtal til Andra Más eftir leik og var alveg klár á því að Grindvíkingar myndu mæta aftur á Hlíðarenda í oddaleik. „Bara slakir. Á báðum endum, sérstaklega varnarlega þar vorum við bara á hælunum. Þú vinnur ekki leiki, hvort sem það er heima eða úti ef þú ert svona slakur varnarlega.“ Hann gat ekki svarað því hvers vegna Grindvíkingar mættu ekki betur innstilltir til leiks í kvöld. „Ef ég vissi svarið við því, þá værum við ekki svona lélegir!“ - sagði Ólafur og hló. „Við þurfum að fara í smá naflaskoðun núna. Stutt í næsta leik á sunnudaginn og sjá hvað við getum lagað og koma svo aftur hingað í oddaleik.“ Beðinn um að benda á hvar Grindvíkingar misstu leikinn frá sér benti hann á sóknarfráköst og upphaf seinni hálfleiks. „Sóknarfráköst þeirra megin. Tóku alltof mikið af sóknarfráköstum. Við vorum að missa þá bara framhjá okkur trekk í trekk. Þeir vinna fyrstu 5-6 mínúturnar í þriðja. Þar fór þetta pínulítið bara. Við vorum bara slakir í byrjun þriðja.“ Ólafur var ekki á því að leikur liðsins stæði og félli með frammistöðu DeAndre Kane. „Alls ekki. Þetta er ekkert „one man show“. Hann var bara ekki að hitta í dag. Valsararnir gerðu honum bara erfitt fyrir. Við verðum bara að finna lausnir að skora boltanum betur og gá hvert það fleytir okkur.“ Badmus svífur yfir KaneVísir/Pawel Andri spurði hvort Grindvíkingar væru mögulega ekki að ná að sína sitt rétta andlit gegn Valsmönnum í þessu einvígi. „Við erum náttúrulega að fá fullt af opnum skotum en ekki að hitta. Við erum bara mannlegir, það gerist. Við þurfum bara að þjappa okkur saman, finna fjölina og mæta bara klárir á sunnudaginn. Það er eiginlega bara það eina sem er í boði.“ Nú er tímabilið undir í næsta leik í Smáranum en Ólafur sagðist ekki vera stressaður. „Verður það ekki bara gaman? Bara spenntir að fara og kvitta fyrir tapið hér og mæta af hörku í oddaleikinn. Mæta klárir og hafa gaman.“ Körfubolti Subway-deild karla Valur UMF Grindavík
Valsmenn tóku á móti Grindvíkingum á Hlíðarenda í kvöld en fyrir leikinn var úrslitaeinvígið í járnum, bæði lið búin að vinna einn leik og ljóst að sigurvegari kvöldsins yrði aðeins einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum. Grindvíkingar verða að sækja í það minnsta einn sigur á Hlíðarenda ætli þeir sér að landa titlinum en það var ekki útlit fyrir að sá sigur kæmi í kvöld í upphafi leiks. Grindvíkingar virtu vanstilltir og ragir en óx ásmegin eftir því sem leið á leikhlutann, staðan 21-19 að honum loknum. Gestirnir skrúfuðu upp ákafann í varnarleiknum í 2. leikhluta og sýndu oft og tíðum ótrúlega fórnfýsi og baráttuvilja í lausum boltum og fráköstum. Grindvíkingar náðu upp fimm stiga forskoti og Finnur tók tvö leikhlé sem skilaði jöfnum leik í hálfleik, staðan 37-37. Sóknarlega áttu Grindvíkingar tvo sterka pósta nær algjörlega inni á þessum tímapunkti. DeAndre Kane með fjögur stig í hálfleik og Daniel Mortensen með núll. Þeir náðu sér reyndar aldrei á strik og Kane átti með afbrigðum dapran leik. Kane og Kristó takast áVísir/Pawel Í þriðja leikhluta féll hreinlega allt með Valsmönnum. Það virtist á tímabili varla skipta máli hvort þeir horfðu á körfuna, þeir hentu boltanum bara upp og hann fór spjaldið ofan í. Grindvíkingar létu allt fara í taugarnar á sér og virtust missa hausinn fræga. Staðan 64-48 fyrir lokaátökin og Valsmenn með leikinn í hendi sér á þessum tímapunkti. Grindvíkingar fundu hreinlega engin svör á báðum endum vallarins í seinni hálfleik og ógæfu þeirra varð allt að vopni. Þegar Kristinn Pálsson smellti þristi með mann í andlitinu og kom muninn í 20 stig var þessi leikur einfaldlega búinn þó enn væru rúmar fimm mínútur eftir. Lokatölur 80-62 á Hlíðarenda og Valsmenn taka því forystuna í einvíginu 2-1 en næsti leikur er í Smáranum á sunnudaginn. Atvik leiksins Í byrjun þriðja leikhluta varð óhugnalegt atvik þegar Antonio Monteiro klifraði nánast yfir Ólaf Ólafsson og féll svo í jörðina úr mikilli hæð og lenti á bakinu með háum skell. Hann var augljóslega sárkvalinn og lá lengi óvígur eftir. Andartaki síðar lá Monteiru óvígur eftirVísir/Pawel Hann var að lokum studdur af velli og alls óvíst hvort hann taki frekari þátt í þessari úrslitaseríu. Stjörnur og skúrkar Booker snýr á Ólaf ÓlafssonVísir/Pawel Eflaust voru ekki margir með „Frank Aron Booker stigahæstur í leik þrjú“ á bingóspjaldinu sínu en það var engu að síður staðreyndin í kvöld. 20 stig frá honum, sjö fráköst að auki og tveir stolnir boltar. Kristófer Acox var næst stigahæstur Valsmanna með 14 stig og hélt DeAndre Kane algjörlega í skefjum. Kristó stillir upp í kerfiVísir/Pawel Hjá Grindavík var Dedrick Basile nánast einn með lífsmarki. 19 stig þar en aðeins tvær stoðsendingar, enda hittu liðsfélagar hans afar illa í kvöld. Basile sækir á körfunaVísir/Pawel Skúrur kvöldsins er óumdeilanlega DeAndre Kane. Eftir að hafa skorað 37 stig að meðaltali í fyrstu tveimur leikjunum skoraði hann aðeins átta í kvöld og var 2/18 í skotum og þar af 0/13 í þristum. Daniel Mortensen var einnig óvenju líflaus í kvöld og skilaði heilum fjórum stigum. DeAndre Kane reynir að komast framhjá KristóVísir/Pawel Dómarar Dómarar kvöldsins voru Kristinn Óskarsson, Davíð Tómas Tómasson og Jóhannes Páll Friðriksson. Þeir létu leikinn flæða á löngum köflum en dæmdu svo á mjög litlar villur inn á milli, sem riðlaði töluvert jafnvæginu í leiknum. Ekki þeirra besta frammistaða en enginn skandall heldur. Stemming og umgjörð Það var mikið líf í N1 höllinni í kvöld. Lifandi tónlist fyrir leik og ljósasýning. Það kom þó á óvart að það var eitthvað af lausum sætum en að vísu var búið að bæta við ansi mörgum stólum á gólfið. Stemmining í kvöld var svolítið í takt við leikinn, kaflaskipt en Valsmenn létu þó ágætlega í sér heyra. Viðtöl Finnur Freyr Stefánsson: „Góður sigur, frábær vörn“ Finnur Freyr fer yfir málin með sínum mönnumVísir/Pawel Andri Már bað Finn Frey, þjálfara Vals, að útskýra það afrek að halda Grindavík í 62 stigum og benti honum á að Grindavík hefði ekki skorað minna nánast allt árið, síðast gegn Hetti þegar liðið skoraði 78 stig þann 4. janúar en Finnur gaf lítið fyrir slíkan samanburð. „Svona samanburður skiptir engu máli. Góður sigur, frábær vörn. Mér fannst við vera að gefa full mikið af hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik. Þegar við vorum aðeins rólegri sóknarlega og við náðum að búa til góð skot í hvert einasta skipti þá náðum við að loka meira á hröðu sóknirnar hjá þeim. Bara frábær frammistaða hjá strákunum og hrós á þá að standa sig svona vel á stóra sviðinu.“ Þá bað Andri hann um að útskýra hvað var að gerast þegar hann tók tvö leikhlé með stuttu millibili í 2. leikhluta. „Við vorum að flýta okkur rosa mikið og taka slæmar ákvarðanir. Hleypa Basile og fleirum í hröðu sóknirnar sínar. Mér fannst við gera vel í seinni hálfleik, þá vorum við aðeins rólegri og fundum götin og holurnar og gerðum vel.“ Staðan í hálfeik var jöfn en Finnur var á því að hans menn hefðu í raun verið að spila mun betur en Grindavík. „Við vorum að hitta illa. Mér fannst við eiga skytturnar okkar inni. Vorum að klikka mikið í kringum körfuna og vorum undir í 50/50 baráttunni. Vorum með heimskulega tapaða bolta sem gáfu þeim körfur. Mér fannst við betri í fyrri hálfleik en var líka ánægður með að við vorum ekki að láta svona mistök bögga okkur mikið. Bara héldum áfram. Eins og við erum búnir að vera að gera alla þessa úrslitakeppni. Erum að verða betri með hverjum leiknum í hverri seríunni og það er eitthvað sem gerir þjálfara ákaflega stoltan, en að því sögðu þá skiptir þessi leikur engu máli ef við vinnum ekki einn í viðbót.“ Mortensen og Kane skoruðu mikið í síðasta leik en skoruðu samanlagt tólf stig í kvöld. Hvað útskýrir það? „Bara frammistaðan hjá okkar mönnum. Bæði frábær liðsvörn og hjá þeim sem voru að dekka þá hverju sinni. Náðu kannski að taka í burtu þá hluti sem voru að meiða okkur hvað mest í síðasta leik.“ Hann vildi þó ekki gefa upp hvað það var nákvæmlega hvaða áherslubreytingu Valsmenn gerðu til að stoppa Kane. „Til þess ertu með þessa gæja þarna í settinu. Helga Magg veðurfréttamann til að skoða þetta. Hann fer yfir þetta. Við verðum að halda okkar fyrir okkur og láta ykkur kryfja. Annars er maður að taka vinnuna af þeim.“ Finnur hafði litlar áhyggjur af því að halda sínum mönnum við efnið fyrir næsta leik. „Það verður held ég bara ekkert mál. Bara áfram það sem við erum búnir að vera að gera. Taka einn leik í einu. Okkur fannst að við hefðum átt að vinna síðasta leik í Smáranum. Við vitum að við getum unnið þar bara eins og í öllum öðrum húsum. Þetta lið er búið að fara á erfiða útivelli undanfarin ár, fara í Síkið og vinna þar, Njarðvík, Þorlákshöfn, Garðabæ. Lið sem er búið að ganga í gegnum margt undanfarin ár. Við vitum bara það að ef frammistaðan er góð þá vinnum við.“ Ólafur Ólafsson: „Þú vinnur ekki leiki ef þú ert svona slakur varnarlega.“ Ólafur Ólafsson vonsvikinnVísir/Pawel Ólafur Ólafsson, fyrirlið Grindvíkinga, var nokkuð brattur þrátt fyrir tapið þegar hann mætti í viðtal til Andra Más eftir leik og var alveg klár á því að Grindvíkingar myndu mæta aftur á Hlíðarenda í oddaleik. „Bara slakir. Á báðum endum, sérstaklega varnarlega þar vorum við bara á hælunum. Þú vinnur ekki leiki, hvort sem það er heima eða úti ef þú ert svona slakur varnarlega.“ Hann gat ekki svarað því hvers vegna Grindvíkingar mættu ekki betur innstilltir til leiks í kvöld. „Ef ég vissi svarið við því, þá værum við ekki svona lélegir!“ - sagði Ólafur og hló. „Við þurfum að fara í smá naflaskoðun núna. Stutt í næsta leik á sunnudaginn og sjá hvað við getum lagað og koma svo aftur hingað í oddaleik.“ Beðinn um að benda á hvar Grindvíkingar misstu leikinn frá sér benti hann á sóknarfráköst og upphaf seinni hálfleiks. „Sóknarfráköst þeirra megin. Tóku alltof mikið af sóknarfráköstum. Við vorum að missa þá bara framhjá okkur trekk í trekk. Þeir vinna fyrstu 5-6 mínúturnar í þriðja. Þar fór þetta pínulítið bara. Við vorum bara slakir í byrjun þriðja.“ Ólafur var ekki á því að leikur liðsins stæði og félli með frammistöðu DeAndre Kane. „Alls ekki. Þetta er ekkert „one man show“. Hann var bara ekki að hitta í dag. Valsararnir gerðu honum bara erfitt fyrir. Við verðum bara að finna lausnir að skora boltanum betur og gá hvert það fleytir okkur.“ Badmus svífur yfir KaneVísir/Pawel Andri spurði hvort Grindvíkingar væru mögulega ekki að ná að sína sitt rétta andlit gegn Valsmönnum í þessu einvígi. „Við erum náttúrulega að fá fullt af opnum skotum en ekki að hitta. Við erum bara mannlegir, það gerist. Við þurfum bara að þjappa okkur saman, finna fjölina og mæta bara klárir á sunnudaginn. Það er eiginlega bara það eina sem er í boði.“ Nú er tímabilið undir í næsta leik í Smáranum en Ólafur sagðist ekki vera stressaður. „Verður það ekki bara gaman? Bara spenntir að fara og kvitta fyrir tapið hér og mæta af hörku í oddaleikinn. Mæta klárir og hafa gaman.“