Innlent

Elds­um­brotum á Reykja­nes­skaga ljúki lík­lega í sumar

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Þorvaldur Þórðarsson eldfjallafræðingur spáir í spilin varðandi framhaldið á Reykjanesi.
Þorvaldur Þórðarsson eldfjallafræðingur spáir í spilin varðandi framhaldið á Reykjanesi. Vísir/Vilhelm

Prófessor í eldfjallafræði telur líklegt að eldsumbrotum á Reykjanesskaga ljúki í sumar. Sennilegast muni gosið sem nú stendur yfir lognast út af á næstu dögum, en þó sé mögulegt að það malli áfram jafnvel í einhverjar vikur líkt og síðasta gos.

Þorvaldur Þórðarsson eldfjallafræðingur ræddi eldgosið sem hófst í gær í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar sagðist hann frekar reikna með að gosið fjaraði út á morgun eða hinn.

Hann segir gosið sömu uppskriftar og fyrri gos á svæðinu. Það væri einungis öðruvísi að því leiti að það sé talsvert aflmeira, sérstaklega í byrjun. 

„Það skýrist einfaldlega af því að það hafði safnast upp meiri kvika en gerði fyrir flest fyrri gos og þá byggist upp meiri yfirþrýstingur.“

Aðspurður hvort enn sé hætta á að nýjar sprungur opnist, til dæmis inni í Grindavík, segir Þorvaldur það virkilega ólíklegt. Flæðið sé nokkuð stöðugt en dragi úr því jafnt og þétt. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur greindu frá því um daginn að þeir teldu líklegt að öll virkni undir Sundhnúksgígaröðinni muni stöðvast í lok júlí á þessu ári.

„Fyrir jól hefur flæðið verið um 8,9 rúmmetrar á sekúndu en núna er það 3,4 rúmmetrar á sekúndu. Ef það heldur áfram með þessu sniði held ég að spá Haraldar rætist, að þessu ljúki yfir sumartímann,“ segir Þorvaldur. 

„Hvort það verður um mitt sumar eða í ágúst er möguleiki að þessir atburðir stöðvist í sumar. Það væri ágætt ef það gerðist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×