Innlent

Sigurður Ingi ekki búinn að undir­rita Isavia-samning

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson í viðtali á Reykjavíkurflugvelli fyrir tveimur árum.
Sigurður Ingi Jóhannsson í viðtali á Reykjavíkurflugvelli fyrir tveimur árum. ÍVAR FANNAR ARNARSSON

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra er ekki búinn að undirrita þjónustusamning sem veitir Isavia heimild til innheimtu bílastæðagjalda á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli. Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður Sigurðar Inga, óskar eftir að þetta komi fram vegna frétta um að í síðustu viku hafi nýr þjónustusamningur verið undirritaður milli innviðaráðuneytis og Isavia, með aðild fjármála- og efnahagsráðuneytisins, þar sem félaginu er veitt heimild til innheimtu stöðugjalda.

Þegar Ingveldur var spurð hvort þetta þýddi að Sigurður Ingi hygðist ekki undirrita samninginn svaraði hún að hann myndi sennilega undirrita hann á endanum. En það væri þó óvíst hvort hann myndi undirrita hann að óbreyttu eða hvort hann myndi óska eftir breytingum.

Í frétt Vísis í morgun var vitnað í frétt héraðsmiðilsins Austurfréttar af umræðum í sveitarstjórn Múlaþings í vikunni og málið sagt sérlega vandræðalegt fyrir þingmenn Framsóknarflokks og Vinstri grænna í kjördæminu, þær Ingibjörgu Isaksen og Jódísi Skúladóttur, sem báðar höfðu opinberlega skrifað gegn gjaldheimtunni og kallað hana landsbyggðarskatt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn hefðu bent á að þjónstusamningurinn við Isavia hafi verið gerður í leyni á sama tíma og fyrir lá lögfræðiálit þar sem efast var um lögmæti gjaldtökunnar. Sérstakt væri að á sama tíma og þingmenn lýstu andstöðu sinni við bílastæðagjöldin skrifuðu ráðherrar úr flokkum þeirra undir samninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×