„Á göngunum er mikið vatn og inni í sumum búðum. Svo hefur reykur farið mjög víða,“ segir Jón Viðar í samtali við fréttastofu um eldinn sem kviknaði í þaki Kringlunnar á fjórða tímanum í dag.
Hann hefur verið að benda búðareigendum, sem vilja skoða verslanir sínar, að koma að vestanverðri Kringlunni. Þaðan geti þeir í samráði við slökkvilið skoðað búðirnar. „Þeim er meira en velkomið að gera það.“
Nú þegar hafa nokkrir búðareigendur kíkt á verslanirnar. „Það hefur gengið mjög vel. Fólk vill koma og kíkja á sína búð og vita hvernig staðan er,“ segir Jón.
„Sumar búðir hafa sloppið vel, aðrar ekki, því miður. Kannski vill fólk fá að gera einhverjar ráðstafanir og þá er það bara mjög klókt.“
Jafnframt bendir hann á að tryggingafélög séu á svæðinu og verslunareigendur geti fengið að tala við þau.

Að sögn Jóns Viðars var um umfangsmikið og erfitt verkefni að ræða. Vinnan á staðnum sé að miklu leyti búin, en nú sé meðal annars verið að fara inn í verslanir sem voru nálægt brunanum og vinna þaðan.
Þó segir Jón ekki vita hversu lengi verði unnið, en líklega eitthvað frameftir.