„Mikilvægt er að þetta gangi hratt og vel fyrir sig og því miður er ekki unnt að halda Kringlunni eða hlutum hennar í fullum rekstri meðan sú vinna stendur yfir,“ segir í fréttatilkynningu frá Kringlunni.
Eldur kviknaði í þaki kringlunnar rétt fyrir klukkan fjögur í gær. Slökkvistarfi lauk ekki fyrr en upp úr miðnætti en þá hafði mikill reykur og vatn komist inn í Kringluna. Ljóst er að um mikið tjón ræðir.
„Reitir og Kringlan vilja koma á framfæri innilegum þökkum til viðbragðsaðila, rekstraraðila, starfsfólks verslana og allra þeirra sem hafa unnið að því hörðum höndum að koma í veg fyrir frekara tjón og við hreinsunarstörf. Hröð og fagmannleg viðbrögð urðu til þess að engin slys urðu á fólki og hægt var að draga úr tjóni,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að stefnt sé að því að opna Kringluna aftur á þriðjudaginn. Verslunareigendur og aðrir rekstraraðilar séu virkilega samstíga í því að ætla ekki að láta atburðinn hafa áhrif á upplifun viðskiptavina.
„Kringlan er skemmtilegt samfélag og innan örfárra daga verður hægt að koma aftur í Kringluna að versla, borða og njóta.“
Fréttin hefur verið uppfærð.