Landsréttur og Héraðsdómur Reykjavíkur sýknuðu heilbrigðisfyrirtækið af kröfum konunnar sem krafðist þess að henni yrði greiddur uppsagnarfrestur og miskabætur, en hún vildi meina að uppsögnin hefði verið einhliða og ólögmæt.
Fyrirtækið sagði konunni upp eftir að hún gerði yfirmönnum sínum ljóst að hún ætlaði ekki að verða við fyrirmælum þeirra um að starfsmenn þyrftu að gangast undir hraðpróf vegna kórónuveirunnar í desember árið 2021.
Landsréttur taldi konuna hafa gerst seka um verulega vanefnd á ráðningarsamningi með því að neita að taka prófið.
Konan óskaði eftir því að málið yrði tekið fyrir í Hæstarétti. Hún sagði að málið hefði verulega þýðingu fyrir réttarstöðu launþega á vinnumarkaði. Þá sagði hún mikilvæga hagsmuni sína í húfi þar sem hún fékk ekki greidd laun í uppsagnarfresti.
Hæstiréttur sagði hins vegar að málið hefði ekki verulegt almennt gildi né að um væri að ræða sérstaklega mikilvæga hagsmuni konunnar. Ekki heldur væri hægt að sjá að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur. Beiðni hennar um áfrýjun var því hafnað.