Upp­gjör, við­töl og myndir: Breiða­blik - ÍA 1-1 | Jafnt í Kópa­voginum

Andri Már Eggertsson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson í baráttunni við Johannes Björn Vall.
Höskuldur Gunnlaugsson í baráttunni við Johannes Björn Vall. Vísir/Anton Brink

Breiðablik og ÍA gerðu 1-1 jafntefli. Marko Vardic var örlagavaldur í kvöld þar sem hann skoraði mark ÍA og fékk á sig vítaspyrnuna sem Höskuldur Gunnlaugsson jafnaði úr. 

Leikurinn fór ansi rólega af stað og það gerðist afar lítið fyrsta hálftímann. Blikar héldu betur í boltann og voru með fulla stjórn á leiknum. Eftir því sem leið á fyrri hálfleik fóru Blikar að eiga fleiri skot á markið og heimamenn bjuggu sér til þó nokkur færi til að brjóta ísinn.

Kristinn Jónsson þurfti að fara út af vegna meiðslaVísir/Anton Brink

Um miðjan fyrri hálfleik varð Kristinn Jónsson, leikmaður Breiðabliks, fyrir því óláni að meiðast og þurfti að fara af velli og inn í hans stað kom Andri Rafn Yeoman.

Blikar reyndu mikið að fara upp hægri kantinn og koma boltanum fyrir sem opnaði fimm manna varnarlínu ÍA en Árni Marinó Einarsson, markmaður ÍA, fór á kostum í markinu og varði hvert skotið á fætur öðru. Árni Marinó var besti leikmaður ÍA í fyrri hálfleik og sá til þess að Blikar skoruðu ekki.

Staðan í hálfleik var jöfn 0-0

Árni Marinó Einarsson, markmaður ÍA, var frábær í kvöldVísir/Anton Brink

Það dró til tíðinda á 58. mínútu þegar Marko Vardic kom ÍA yfir. Steinar Þorsteinsson átti frábæra hornspyrnu sem rataði á fjærstöng þar mætti Vardic og lagði boltann inn af stuttu færi. Eins og þruma úr heiðskíru lofti var ÍA komið yfir en liðið hafði ekki skapað sér neitt fram að markinu.

Blikar fengu vítaspyrnu þegar tæplega átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Höskuldur Gunnlaugsson tók hornspyrnu og Kristófer Ingi Kristinsson átti bakfallspyrnu sem var langt frá því að vera góð en boltinn fór í höndina á Marko Vardic og vítaspyrna dæmd. Höskuldur tók vítaspyrnuna, setti boltann í vinstra hornið og skoraði.

Fleiri urðu mörkin ekki og leikurinn endaði með 1-1 jafntefli.

Erik Tobias Tangen Sandberg, leikamður ÍA, í leik kvöldsinsVísir/Anton Brink

Atvik leiksins

Árni Marinó Einarsson, markmaður ÍA, bjargaði sínum mönnum fyrir horn þegar hann átti stórkostlega tvöfalda markvörslu. Fyrst varði hann frá Oliver Sigurjónssyni sem átti skot hægra megin í teignum en boltinn datt beint fyrir Benjamin Stokke sem átti bara eftir að renna boltanum í markið en Árni náði að verja með fætinum.

Stjörnur og skúrkar

Árni Marinó Einarsson, markmaður ÍA, var frábær í kvöld. Gestirnir gátu þakkað honum að Breiðablik komst ekki á blað í fyrri hálfleik þrátt fyrir sex skot á markið.

Sömu sögu má segja um Anton Ara Einarsson sem bjargaði stigi þegar hann varði dauðafæri frá Viktori Jónssyni sem átti skot af stuttu færi á 95. mínútu.

Marko Vardic var skúrkur þrátt fyrir að hafa skorað þar sem hann gaf Blikum vítaspyrnu þegar hann rétti höndina út þegar laus bakfallspyrna hjá Kristófer Inga Kristinssyni var á leiðinni í átt að markinu. 

Dómarinn

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi leik kvöldsins. Vilhjálmur þurfti að taka eina stóra ákvörðun þegar hann flautaði vítaspyrnu þar sem boltinn fór í höndina á Marko Vardic. Hárrétt niðurstaða og Vardic gat sjálfum sér um kennt.

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi leik kvöldsinsVísir/Anton Brink

Vilhjálmur Alvar átti góðan dag á flautunni og fær 9 í einkunn.

Stemning og umgjörð

Rétt yfir eitt þúsund manns mættu á Kópavogsvöll. Það var góð stemning á vellinum þar sem Kópacabana, stuðningsmannasveit Breiðabliks, mætti á svæðið og lét vel í sér heyra.

Viktor Jónsson, leikmaður ÍA,  fagnaði þrítugsafmælinu sínu í dag og stuðningsmenn ÍA sungu afmælissönginn fyrir hann eftir leik sem hefur sennilega glatt hann aðeins eftir að hafi verið nýbúinn að misnota dauðafæri. 

Breiðablik gerði 1-1 jafntefli gegn ÍA og Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var ekki sáttur með síðari hálfleik liðsins.

„Það sem gerðist í kjölfarið var algjört agaleysi í liðinu“

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Anton Brink

„Mér fannst fyrri hálfleikur frábær og við vorum frábærir varnarlega. Mér fannst við gera vel í að komast í sóknir og fínar stöður. Mér fannst vanta betri ákvarðanir og gæði á síðasta þriðjungi en fengum ágæt færi til þess að komast yfir. Mér fannst við ekki byrja seinni hálfleikinn jafn vel og þeir skoruðu úr sínu fyrsta færi.“

Eftir góða spilamennsku í fyrri hálfleik var Halldór langt frá því að vera sáttur með liðið sitt í síðari hálfleik. 

„Mér fannst að það sem gerðist í kjölfarið hafi verið algjört agaleysi í liðinu. Ég skil að við vildum reyna jafna en hálft liðið var að spila allt aðra stöðu en lagt var upp með sem gerði sóknarleikinn okkar ekki góðan og að lokum var það Anton Ari sem bjargaði stigi fyrir okkur.“

„Þetta var heilsteypt frammistaða í fyrri hálfleik en það voru hlutir í seinni hálfleik sem voru alls ekki í lagi,“ sagði Halldór Árnason að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira