Útkall barst Gæslunni á meðan þyrlan var á flugi frá Ísafirði til Reykjavíkur með tvo veika einstaklinga innanborðs.
Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar staðfestir þetta við fréttastofu.
„Þyrlan fór bara rakleiðis í það verkefni, þetta gerðist allt mjög hratt“ segir Ásgeir.

„Okkur barst tilkynning frá Neyðarlínunni um ræðara sem ráku frá landi og voru þá, eðli máls samkvæmt í hættu. Það þurfti hraðar hendur.“
Þyrlan lenti því með fjóra einstaklinga á Reykjavíkurflugvelli nú klukkan sjö. Kajakræðararnir eru kaldir en heilir á húfi að sögn Ásgeirs.
Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu staðfestir sömuleiðis að lögreglan hafi verið kölluð til vegna málsins.