Körfubolti

Kaupir hlut í PSG eftir sigur Banda­ríkjanna í París

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kom, sá, sigraði og keypti hlut í PSG.
Kom, sá, sigraði og keypti hlut í PSG. Gregory Shamus/Getty Images

Nýkrýndur Ólympíumeistari í körfubolta, Kevin Durant, virðist hafa líkað veran í París svo vel að hann hefur ákveðið að kaupa minnihluta í knattspyrnuliðinu París Saint-Germain.

Hinn 35 ára gamli Durant spilar í dag með Phoenix Suns í NBA-deildinni í körfubolta. Hann var hluti af Ólympíuliði Bandaríkjanna sem vann keppnina í fimmta skiptið í röð.

Í gærkvöld, mánudag, birti fjöldi erlendra miðla fréttir þess efnis að kappinn væri að verða minnihluta eigandi í stórliði PSG. Þar á meðal er Sports Illustrated og Fabrizio Romano en hann er farinn að færa út kvíarnar og hættur að tjá sig eingöngu um möguleg vistaskipti knattspyrnumanna.

Í frétt SI segir að PSG sé stærsta knattspyrnulið Frkaklands og að félagið hafi síðan 2011 verið alfarið í eigu Íþróttafjárfestingarsjóð Katar. Það er þangað til Arctos Partners keyptu tólf og hálft prósent í félaginu á síðasta ári.

Ekki kemur fram hversu mikinn hluta Durant er að kaupa en hann er einn margra íþróttamanna frá Bandaríkjunum sem fjárfesta í knattspyrnuliðum í Evrópu. Sem dæmi má nefna að samherji hans í bandaríska landsliðinu, LeBron James, á hlut í Liverpool.

PSG hefur undanfarið verið í góðu sambandi við Air Jordan hluta Nike-samsteypunnar en Durant er á samning hjá Nike. Það verður því forvitnilegt að sjá hvort íþróttarisinn komi eitthvað að þessum óvæntu kaupum Durant í franska félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×