Skoðun

Greiðslu­byrði hús­næðis­lána lækkar um helming! Frekari lækkana að vænta á næstu mánuðum

Baldur Borgþórsson skrifar

Með nánast einu pennastriki væri hægt að raungera fyrirsögnina hér að ofan.

Með einu pennastriki væri hægt að hrinda í framkvæmd breytingu sem myndi á afar skömmum tíma, örfáum mánuðum, skila einhverjum mestu umbótum fyrir íslensk heimili og fyrirtæki sem um getur.

Umbætur sem myndu skila sér strax:

  • Lækkun greiðslubyrðar húsnæðislána um helming.
  • Lækkun leiguverðs.
  • Lækkun fjármagnskostnaðar fyrirtækja um allt að helming.
  • Brotthvarf verðtryggðra lána.
  • Stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir jafnt einstaklinga sem fyrirtæki.
  • Gjörbreytt og sanngjarnt fjármálaumhverfi sem bætir hag 99% þjóðarinnar.

Gallar sem kæmu fram strax:

  • Fjármagnseigendur sem hafa megintekjur sínar af vöxtum, geta ekki lengur gengið í sjóði heimila og fyrirtækja fyrir tilstuðlan hávaxtastefnu Seðlabanka Íslands.

Evrutengd króna og stýrivaxtaákvarðanir Seðlabanka Evrópu: Einhliða og einfalt

Slík bylgja lækkana á flestum sviðum mun að sjálfsögðu valda því að verðbólga mun hjaðna hratt - nánast þurrkast út.

En hvernig er hægt að gera þetta?

Það er einfalt.

Með lagasetningu verður íslenska krónan framvegis tengd evru og þar með gilda stýrivaxtaákvarðanir Seðlabanka Evrópu framvegis, rétt eins og er í nær öllum ríkjum Evrópu.

Lykilatriðið er að stýrivaxtaákvarðanir Seðlabanka Evrópu gildi hér samhliða Evrutengingu krónu.

Hlutverki Seðlabanka Íslands verður samhliða breytt í samræmi við ný lög.

Vissulega mun þetta kosta mikla vinnu og undirbúning. Breyting laga um lífeyrissjóði og margt fleira fellur til en í raun er þetta gert með einu pennastriki. Pennastrikið er ákvörðunin um að gera þessar grundvallar breytingar á fjármálakerfinu, öllum til bóta.

Með einu pennastriki er hægt að gera kraftaverk.

Hvers vegna að tengja við evru?

Svarið er, að hér á landi búum við nær alfarið við evrópskt reglu- og lagaumhverfi.

Staðreyndin er að við hlýtum öllum sömu leikreglum og nær allir nágrannar okkar í Evrópu.

Nema einni.

Við borgum margfalt hærri vexti og munurinn er sláandi.

Lítum á nokkur dæmi um breytilega óverðtryggða íbúðalánavexti í Evrópu:

  • Danmörk 3 - 4%
  • Svíþjóð 3,8 - 4,5%
  • Noregur 6 - 7%
  • Ísland 11 - 12%
  • Grikkland 3-4%
  • Ítalía 3-4%

Hér er rétt að geta þess að 3-4% vextir nágranna okkar sem hér eru sýndir þykja háir, eru að jafnaði mun lægri.

Danmörk, 6 milljónir íbúa, er í ESB, með eigin mynt, en dkr. er tengd evrunni sem gefur aukin stöðugleika og hefur meðal annars leitt til þess að danska krónan er í dag farin að nálgast tvöfalt virði nkr. og skr.

Svíþjóð, 11 milljónir íbúa, er í ESB, með eigin mynt, ekki tengd evru og svo virðist sem sú ákvörðun sé að valda þessari miklu veikingu sænsku krónunnar.

Noregur, 5,6 milljónir íbúa, er ekki í ESB en er í EES eins og Ísland, er með eigin mynt og ekki tengda evru.

Ísland, 0,4 milljónir íbúa, er ekki í ESB en er í EES, er með eigin mynt og ekki tengda evru.

Með því að tengja íslensku krónuna evru getur Ísland skotið sér upp að hlið nágrannaþjóða sinna nær og fjær ( Grikkland og Ítalía eru með 3,5% vexti).

Með einu pennastriki er hægt að gera kraftaverk.

Er ekki tími til kominn að tengja? Nýjar leikreglur – Nýr veruleiki

Þegar farið verður í þessa gjörbyltingu fjármálakerfisins munu 99% þjóðarinnar fagna.

Eitt prósent mun hins vegar ekki fagna og berjast með kjafti og klóm til síðasta manns, fram á síðasta dag, til að koma í veg fyrir gjörninginn.

Við munum heyra tal um fullveldi, fiskikvóta, sérstöðu og hvað eina sem til fellur.

Af því tilefni er rétt að taka fram að hér er ekki um inngöngu í ESB að ræða, heldur tengingu íslensku krónunnar við evru samhliða upptöku stýrivaxtaákvarðana Seðlabanka Evrópu hér á landi, með samráði eða einhliða.

Umræða um inngöngu í ESB, með eða móti er síðan allt annar hlutur og getur haldið áfram óáreitt en með einni stórri breytingu þó - þjóðinni blæðir ekki út á meðan í okurvaxtaumhverfi.

Það má segja að barátta eina prósentsins sé þegar hafin en undirritaður hefur nú þegar fengið heilmiklar skammir fyrir málflutninginn frá ónefndum aðilum innan raða eina prósentsins.

Miklar skammir en engin haldbær rök – engin.

Aðeins fullyrðingar af ýmsu tagi um að nauðsyn sé að hafa leikreglur sem hannaðar eru fyrir 1% þjóðarinnar og koma skelfilega illa niður á 99% hennar....

Er ekki tími til kominn að tengja? Hætta að hlýta leikreglum sem hannaðar eru fyrir 1% þjóðarinnar og taka upp leikreglur hannaðar fyrir 99% þjóðarinnar?

Ég segi já.

Eitt risastórt Já.

Höfundur er fyrrverandi varaborgarfulltrúi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×