Spá Landsnets nær fram til ársins 2050 en í fréttum Stöðvar 2 létum við okkur nægja að sinni að spyrja um næstu fimm árin.
„Horfurnar næstu fimm ár eru ekkert sérstaklega góðar. Það eru talsverðar líkur á að við höfum ekki næga orku í landinu,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
„Það skánar kannski ekki fyrr en eftir árið 2029, eða eitthvað svoleiðis, að því gefnu að þau plön sem nú er búið að samþykkja á Alþingi gangi eftir.“

Bág vatnsstaða í virkjanalónum þetta haustið eykur líkur á meiri skerðingum í vetur. Í fyrravetur bitnaði raforkuskorturinn einkum á þeim sem samið höfðu um skerðanlega orku.
„Eins og staðan er núna eru jafnvel líkur á því að forgangsorkuskerðingar verði í vetur út af bágri vatnsstöðu.“
-En almenningur, hvernig finnur hann fyrir þessu?
„Það bara verður að koma í ljós. Almenningur fann fyrir þessu síðasta vetur með því að það voru skertar hitaveiturnar, olíukyndingar þar. Þannig að væntanlega hefur þetta áhrif á reikningana hjá almenningi,“ svarar Guðmundur Ingi.

Athygli vekur að raforkuspáin gengur út frá því að bæði vindorkulundur við Búrfell og Hvammsvirkjun fái grænt ljós en hvorugt er í höfn. En hvað ef ekkert af því næst fram?
„Ef ekkert gerist, ef engir virkjanakostir koma inn á kerfið, þá mun bara staðan versna, einfaldlega vegna þess að almenn notkun hún eykst alltaf í landinu og stórnotkunin er svipuð. Þannig að þá mun bara staðan versna og líkur á skerðingum verða meiri og meiri.“
-En afhverju erum við í þessari stöðu, að það sé bara viðvarandi orkuskortur næstu árin?
„Það er náttúrlega fyrst og fremst af því að framleiðslan er ekki í takt við aukningu á notkuninni og því fer sem fer.
Að auki þá náttúrlega búum við við veikleika í flutningskerfinu, eins og allir vita, á milli landshluta. Þannig að við náum heldur ekki að nýta mannvirkin sem við erum með í dag á besta hátt,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.