Neytendur

Stefnt á að koma upp 98 hleðslustöðvum í Kópa­vogi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Frá vinstri eru Jakob Sindri Þórsson, sérfræðingur hjá Kópavogsbæ, Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri ON, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri, Birna Kristjánsdóttir, viðskiptastjóri hjá ON.
Frá vinstri eru Jakob Sindri Þórsson, sérfræðingur hjá Kópavogsbæ, Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri ON, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri, Birna Kristjánsdóttir, viðskiptastjóri hjá ON. Aðsend

Orka náttúrunnar, ON, mun á næstu vikum setja upp tugi hleðslustöðva í Kópavogi í samstarfi við bæinn. Hleðslustöðvar við Hálsatorg í Hamraborg voru teknar í notkun í vikunni. Þær eru fyrstu af 98 hleðslustöðvum á 14 stöðum í Kópavogsbæ sem verða sett upp í haust.

Frá þessu er greint í tilkynningu en ON og Kópavogsbær undirrituðu samning um uppsetningu og rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla í Kópavogi í kjölfar útboðs.

Í tilkynningu segir að með þessu vilji bærinn gera íbúum kleift að skipta „áhyggjulaust“ yfir í rafbíl. Þá kemur fram að á næstu vikum verði sett upp alls 98 tengi á 14 stöðum í Kópavogi. Það sé við skóla, sundlaugar og bókasöfn. Tengin eigi að nýtast Kópavogsbúum og öðrum rafbílanotendum á meðan þau skreppi á þessa staði.

„Þetta er mjög ánægjulegur áfangi hjá Kópavogsbæ enda er gott aðgengi að hleðslustöðvum ein af forsendum rafbílavæðingar. Við höfum fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir hleðslustöðvum, í takt við fjölgun rafbíla og ánægjulegt að geta brugðist við því og auðveldað Kópavogsbúum og öðrum skiptin yfir í rafbíla,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri, í tilkynningu.

Hægt að hlaða í október

Nú þegar eru samkvæmt tilkynningu komin upp tengi við Fífuna, Fagralund, sundlaug Kópavogs og Hálsatorg. ON gerir ráð fyrir að hægt verið að hlaða rafhlöðurnar á öllum nýju staðsetningunum í Kópavogi í október og með þeirri fjölgun eru Hverfahleðslutengi ON á landinu öllu orðin um 650.

„Það er ánægjulegt fyrir okkur hjá Orku náttúrunnar að vera í þessu samstarfi við Kópavogsbæ enda Hverfahleðslur ON mikilvægur hlekkur í öflugu hleðsluneti okkar um land allt. Markmið ON er að tryggja öruggt aðgengi að rafmagni hvort sem er heima eða á ferðinni, sem og öruggt aðgengi fyrir öll að hleðslustöðvum okkar. Með samstarfinu höldum við áfram vegferð okkar í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla þar sem við höfum stolt verið í fararbroddi síðustu 10 ár,“ segir Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, í tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×